• lau. 13. sep. 2014
  • Landslið

A kvenna - Öruggur sigur á Ísrael

HM kvenna 2015 í Kanada
hm-2015-kanada

Íslensku stelpurnar unnu öruggan sigur á Ísrael í undankeppni HM en leikið var á Laugardalsvelli.  Lokatölur urðu 3 - 0 og skoruðu þær Dagný Brynjarsdóttir og Fanndís Friðriksdóttir mörkin í fyrri hálfleik og Sara Björk Gunnarsdóttir bætti við þriðja markinu.

Það voru einungis liðnar 62 sekúndur af leiknum þegar Dagný Brynjarsdóttir hafði skorað fyrsta markið eftir fyrirgjöf frá Hallberu Gísladóttur.  Íslenska liðið stjórnaði leiknum frá upphafi og á 26. mínútu bætti Fanndís Friðriksdóttir við öðru marki með góðu skoti.  Þannig var staðan þegar ungverski dómarinn flautaði til leikhlés.

Íslenska liðið hafði töluverða yfirburði einnig í seinni hálfleik en mörkin létu þó á sé standa.  Það var í uppbótartíma sem að Sara Björk Gunnarsdóttir bætti við þriðja marki Íslands eftir darraðadans í vítateignum.  Þetta urðu lokatölur og öruggur sigur Íslands í höfn en gestirnir vörðust af miklum móð.

Næsti leikur Íslands, og sá síðasti í riðlinum, verður svo gegn Serbum á Laugardalsvelli, miðvikudaginn 17. september kl. 17:00