Dómarar frá Króatíu á Ísland - Tyrkland
Það verða dómarar frá Króatíu sem dæma leik Íslands og Tyrklands í undankeppni EM en leikið verður á Laugardalsvelli, þriðjudaginn 9. september kl. 18:45. Dómarinn heitir Ivan Bebek og honum til aðstoðar verða Tomislav Petrovic og Miro Grgic. Aukaaðstoðardómarar verða Domagoj Vuckov og Ante Simunovic-Vucemilovic og varadómari verður Dalibor Conjar.
Þetta er í fyrsta sinn sem aukaaðstoðardómarar eru að störfum á opinberum leik hér á landi og sömuleiðis mun Ivan verða með spreybrúsa í farteskinu líkt og gaf góða raun á leikjum HM í Brasílíu í sumar.
Dómaraeftirlitsmaður UEFA á leiknum kemur frá Slóvakíu og heitir Jozef Marko og eftirlitsmaður leiksins er Wolfgang Thierrichter frá Austurríki.