• mið. 03. sep. 2014
  • Landslið

U21 karla - Glæsilegur sigur á Armenum

Island-u21

Strákarnir í U21 unnu í dag glæsilegan sigur á Armenum í riðlakeppni EM U21 en leikið var á Fylkisvelli.  Lokatölur urðu 4 - 0 fyrir Ísland og leiddu íslensku strákarnir með einu marki í leikhléi.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í byrjun leiks og gestirnir héldu boltanum ágætlega innan liðsins án þess þó að skapa sér mörg  marktækifæri.  Armenar áttu þó fyrsta færið þegar langskot þeirra fór í utanverða stöngina.  Það var samt Hólmbert Friðjónsson sem kom íslenska liðinu yfir á 24. mínútu með góðum skalla eftir aukaspyrnu frá Guðmundi Þórarinssyni.  Eftir það voru íslensku strákarnir sterkari og höfðu undirtökin í leiknum til loka. 

Hólmbert var svo aftur á ferðinniá 57. mínútu með marki úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að brotið hafði verið á Jóni Daða Böðvarssyni.  Emil Atlason skoraði þriðja mark Íslands eftir fyrirgjöf frá Herði Björgvini Magnússyni.  Þetta var lokasnerting Emils í leiknum því honum var skipt útaf og í hans stað kom Ólafur Karl Finsen sem gerði fjórða mark Íslands á 90. mínútu eftir sendingu frá öðrum varamanni, Aroni Elís Þrándarsyni.  Öruggur og glæstur sigur strákanna í höfn og heldur möguleikanum á því að komast í umspilið sprelllifandi.

Lokaleikur Íslands í riðlinum er gegn Frökkum ytra, mánudaginn 8. september.  Frakkar leika gegn Kasakstan á morgun, fimmtudaginn 4. september.  Með jafntefli eða sigri þá tryggja Frakkar sér efsta sætið í riðlinum og þar með sæti í umspili.  Vinni Kasakstan þá á Ísland möguleika á efsta sætinu með tveggja marka sigri á Frökkum í lokaleiknum.  En hafni Ísland í öðru sæti riðilsins er ennþá möguleiki á umspilssæti en fjórar þjóðir, með bestan árangur í öðru sæti úr riðlunum tíu, komast einnig í umspil.  Skýrist betur eftir leiki fimmtudagsins og föstudagsins hvar möguleika Íslands liggja.