Tíu landsleikir framundan í september
Það verður nóg að gera á vígstöðvum landsliða okkar í mánuðinum en núna í september verða 10 landsleikir á dagskránni hjá fimm landsliðum okkar. Fyrstu landsleikirnir fara fram í dag, miðvikudaginn 3. september, þegar U21 og U19 karla leika.
U21 karla leikur gegn Armeníu í dag í undankeppni EM og fer sá leikur fram á Fylkisvelli kl. 16:30. Þeir halda svo til Frakklands og leika lokaleik sinn í undankeppninni gegn heimamönnum, mánudaginn 8. september. Strákarnir í U19 mæta Norður Írum ytra í dag í vináttulandsleik og hefst sá leikur kl. 13:00 að íslenskum tíma. Sömu þjóðir mætast svo í Belfast í öðrum vináttulandsleik á föstudaginn.
Þriðjudaginn 9. september leikur A landslið karla upphafsleik sinn í undankeppni EM þegar þeir taka á móti Tyrkjum á Laugardalsvelli. Laugardaginn 13. september leikur svo A landslið kvenna gegn Ísrael í undankeppni HM og fer sá leikur fram á Laugardalsvelli. Fjórum dögum síðar taka stelpurnar svo á móti Serbíu í lokaleik sínum í undankeppninni.
Laugardaginn 13. september hefja stelpurnar í U19 svo leik í undankeppni EM en riðill þeirra er leikinn í Litháen. Þar mæta þær, auk heimastúlkum, Króatíu og Spáni. Efstu tvær þjóðirnar tryggja sér sæti í milliriðlum.