• mið. 27. ágú. 2014
  • Landslið

U15 karla - Brons hjá Íslandi á Ólympíuleikum ungmenna

Fagnað eftir mark Torfa Tímóteusar Gunnarssonar gegn Grænhöfðaeyjum
Isl-Graenhfeyjar

Strákarnir í U15 unnu í dag til bronsverðlauna á Ólympíuleikjum ungmenna sem fram fóru í Nanjing í Kína.  Leikið var gegn Grænhöfðaeyjum í dag og lauk leiknum með 4 - 0 sigri Íslands en staðan var 2 - 0 í leikhléi.

Það var Kolbeinn Birgir Finnsson sem kom Íslendingum yfir með marki úr vítaspyrnu á 14. mínútu og á lokamínútu fyrri hálfleiks skoraði Torfi Tímóteus Gunnarsson mark með skalla eftir aukaspyrnu.  Strax í byrjun síðari hálfleiks komst Helgi Guðjónsson einn innfyrir en markvörður Grænhöfðaeyja varði boltann í varnarmann sinn og þaðan fór boltinn í netið.  Helgi gerði þetta svo sjálfur á 61. mínútu þegar hann skoraði með skalla eftir aukaspyrnu.  Mörkin urðu ekki fleiri og íslenska liðið fagnaði bronsverðlaunum sínum á þessum Ólympíuleikum ungmenna.

Íslensku strákarnir réðu lögum og lofum í þessum leik og voru í raun hársbreidd frá því að komast í úrslitaleikinn en biðu lægri hlut gegn Suður Kóreu í undanúrslitum eftir vítaspyrnukeppni.  Suður Kórea og Perú leika til úrslita síðar í dag.

Þar með er löngu móti lokið hjá strákunum en óhætt að segja að þetta hafi verið mikið ævintýri og frábær reynsla fyrir leikmenn, þjálfara og aðstandendur hópsins.  Þessir Ólympíuleikar ungmenna hafa verið mikil hátíð og Kínverjar lagt mikið í sem best fari um keppendur.  Nokkur hópur foreldra og fylgifiska fylgdi hópnum til Kína og lét vel í sér heyra á leikjunum og vakti athygli á pöllunum í Nanjing.

Leikskýrsla

Myndir frá leiknum

Úr leik Íslands og Grænhöfðaeyja um brons á Ólympíuleikum ungmenna í Nanjing