• fim. 21. ágú. 2014
  • Landslið

Sárt tap gegn Dönum

HM kvenna 2015 í Kanada
hm-2015-kanada

Íslensku stelpurnar töpuðu gegn Dönum í undankeppni HM í kvöld en leikið var á Laugardalsvelli.  Lokatölur urðu 0 -1 eftir að staðan hafði verið markalaust í leikhléi.  Með þessu tapi eru möguleikar Íslands á að komast á HM úr sögunni. 

Íslenska liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og sköpuðu sér fjölmörg færi á fyrsta hálftíma leiksins.  Danir komust svo smám saman inn í leikinn þegar leið á hálfleikinn og fengu gott færi á lokasekúndum fyrri hálfleiks.  En íslensku færin voru mun fleiri og hreint með ólíkindum að boltinn skuli ekki hafa hafnað í netinu hjá Dönum. 

Seinni hálfleikur var mun lokaðri og færin létu á sér standa.  Eina mark leiksins kom svo á 58. mínútu þegar Pernille Harde skoraði eftir laglega sókn.  Eftir þetta var róðurinn orðinn þungur og ekki gekk að jafna metin þrátt fyrir ágætar tilraunir.  En þegar rúmenski dómarinn flautaði til leiksloka var ljóst að draumurinn um HM 2015 var úr sögunni að þessu sinni hjá Íslendingum og Danir fögnuðu sigri.  Danir eru nú í öðru sæti riðilsins með 15 stig en Ísland í það þriðja með 13 stig.  Sviss er í efsta sæti með 25 stig.  Einn annar leikur fór fram í riðlinum í kvöld, Serbar lögðu Ísrael 3 - 0.

Það eru hinsvegar tveir heimaleikir eftir hjá íslenska liðinu, Ísrael leikur á Laugardalsvelli 13. september og Serbía sækir okkur heim 17. september.