• mið. 30. júl. 2014
  • Landslið

A karla - Vináttulandsleikur gegn Belgum 12. nóvember

Eden Hazard (mynd: KBVB)
bfa-hazard-2014

Knattspyrnusambönd Íslands og Belgíu hafa komist að samkomulagi um að karlalandslið þjóðanna leiki vináttulandsleik í Brussel miðvikudaginn 12. nóvember næstkomandi.  Þetta verður í níunda skiptið sem karlalandslið þjóðanna mætast en Belgar hafa haft sigur í öll skiptin hingað til.  Síðast léku þjóðirnar í undankeppni HM árið 1977 og þá unnu Belgar, 4 – 0.

Belgíska liðið hefur náð frábærum árangri undanfarin ár og komust í 8-liða úrslit á HM í Brasilíu en féllu þar úr leik gegn Argentínu.  Belgar eru í 5. sæti á styrkleikalista FIFA sem segir nokkuð um uppgang þeirra í knattspyrnuheiminum.  Leikur þeirra gegn Íslandi er undirbúningur fyrir leik þeirra gegn Wales sem fer fram í Brussel, 16. nóvember.

Þessi vináttulandsleikur verður undanfari leiks Íslands gegn Tékklandi í undankeppni EM en hann fer fram ytra, sunnudaginn 16. nóvember.  Undankeppnin hefst hinsvegar hér á Laugardalsvelli, þriðjudaginn 9. september, þegar tekið verður á móti Tyrkjum.

Markatalan úr leikjunum átta er mjög hagstæð Belgum eða 29 - 5.  Þessi fimm mörk komu í tveimur fyrstu leikjunum sem fram fóru árið 1957 og enduðu 8 - 3 og 2 - 5.  Það voru Skagamennirnir Þórður Þórðarson og Ríkharður Jónsson sem skoruðu þessi mörk, Þórður með 3 og Ríkharður með 2.