Styrkleikalisti FIFA - Ísland upp um 5 sæti
Íslenska karlalandsliðið fer upp um fimm sæti á nýjum styrkleikalista FIFA sem gefinn var út í dag. Ísland er í 47. sæti listans en það eru nýkrýndir heimsmeistarar Þjóðverja sem tróna á toppi listans í fyrsta skiptið í um 20 ár.
Listinn ber keim af því að heimsmeistarakeppninni er nýlokið en nokkuð er um breytingar á toppi listans.
Af andstæðingum Íslands í undankeppni EM er það að frétta að Hollendingar eru í 3. sæti listans, Tyrkir eru í 32. sæti og Tékkar í 35. sæti. Lettar eru svo í 103. sæti og Kasakar í 127. sæti á nýjum styrkleikalista FIFA.