• lau. 05. júl. 2014
  • Landslið

Enskur 3-1 sigur á NM U17 kvenna

Byrjunarlið U17 kvenna gegn Englandi
WP_000600

U17 landslið kvenna tapaði í dag, laugardag, öðrum leik sínum á Opna Norðurlandamótinu, sem fram fer í Bohuslän í Svíþjóð.  Mótherjinn var lið Englands, sem vann 3-1 sigur á íslenska liðinu, þrátt fyrir fína frammistöðu stelpnanna okkar.


Enska liðið lék undan sterkum sunnanvindi í fyrri hálfleik og setti mikla pressu á íslenska markið í byrjun.  Uppskeran var mark á 9. mínútu, beint úr aukaspyrnu.  Fyrirliðinn Una Margrét jafnaði metin á 31. mínútu eftir flott spil og skot frá vítateigshorninu.  Áður hafði Andrea Celeste Thorisson komist ein á móti markmanni enska liðsins, sem varði vel.  Englendingar náðu forystu að nýju 5 mínútum eftir jöfnunarmark Íslands með skoti utan af velli.  Heilt yfir var enska liðið betri aðilinn í fyrri hálfleik, en íslenska liðið átti fína spretti og nokkur ágætis færi.

Seinni hálfleikur var rólegur lengst af, íslenska liðið betra, en náði þó ekki að skapa sér færi.  Það var því köld vatnsgusa þegar England skoraði sitt þriðja mark 5 mínútum fyrir leikslok með skoti út vítateignum.  Okkar stelpur náðu ekki að svara og leiknum lauk með 3-1 sigri Íslands.

Lokaumferðin í riðlakeppninni fer fram á mánudag, og þá mætir Ísland liði Hollands, og hefst leikurinn kl. 16:00 að íslenskum tíma.
Keppnissvæðið á NM U17 kvenna í Svíþjóð 2014