• fim. 19. jún. 2014
  • Landslið

A kvenna - Öruggur sigur í Laugardalnum

HM kvenna 2015 í Kanada
hm-2015-kanada

Íslenska kvennalandsliðið vann öruggan sigur í kvöld á Möltu með fimm mörkum gegn engu en leikurinn var í undankeppni fyrir HM í Kanada og fór fram á Laugardalsvelli.  Yfirburðir íslenska liðsins voru miklir frá upphafi til enda en forystan var þrjú mörk þegar flautað var til leikhlés.

Í raun var furðanlegt að mörkin yrðu ekki fleiri en íslensku stelpurnar fengu fjölda færa í leiknum og markskotin voru ansi mörg.  Fyrsta markið kom á 12. mínútu þegar Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði með skalla eftir hornspyrnu frá Hallberu Gísladóttur.  Elín Metta Jensen kom Íslendingum tveimur mörkum yfir á 20. mínútu en það var fyrsta landsliðsmark hennar.  Það var svo Dóra María Lárusdóttir, sem var fyrirliði Íslands í þessum leik, sem skoraði þriðja markið á 40. mínútu.

Gestirnir frá Möltu voru fegnar að heyra þegar franski dómarinn flautaði til leikhlés og stórsókn Íslands hélt áfram í síðari hálfleik.  Mörkin létu þó á sér standa en Dagný Brynjarsdóttir skoraði fjórða markið á 64. mínútu eftir mikla orrahríð í markteig Möltu.  Það var svo Elín Metta sem gerði síðasta mark Íslands á 86. mínútu eftir sendingu frá Hörpu Þorsteinsdóttur og þar við sat.

Öruggur sigur í höfn og leikurinn í eigu íslenska liðsins frá upphafi til enda.  Ísland er í öðru sæti riðilsins með 13 stig, einu stigi á undan Dönum sem lögðu Ísrael í kvöld, 5 - 0.  Sviss er í efsta sætinu en þær lögðu Serbíu í kvöld, 7 - 0.

Staðan í riðlinum