• mið. 04. jún. 2014
  • Landslið

Eins marks sigur í Laugardalnum

Kolbeinn-Noregur-2013

Ísland bar sigurorð af Eistlandi í kvöld í vináttulandsleik sem fram fór á Laugardalsvelli.  Lokatölur urðu 1 – 0 eftir að markalaust hafði verið í leikhléi.  Þetta var síðasti leikur Íslands fyrir undankeppni EM en fyrsti leikur þar verður gegn Tyrkjum á Laugardalsvelli 9. september.

Bæði lið fengu færi í fyrri hálfleiknum þó svo að rólegt yfirbragð hefði verið yfir honum.   Aron Einar Gunnarsson fékk gott færi en skaut rétt yfir og Kolbeinn átti skalla ofan á þverslána.  Gestirnir áttu gott skot í þverslána og þá varði Gunnleifur vel frá sóknarmanni þeirra sem komst einn í gegn.

Eistlendingar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og strax í upphafi varði Ögmundur Kristinsson glæsilega í í sínum fyrsta landsleik en hann kom inn á í leikhléi.  Það var svo á 53. mínútu að Rúrik Gíslason lék inn í vítateig gestanna þar sem brotið var á honum og danski dómarinn dæmdi vítaspyrnu.  Úr henni skoraði Kolbeinn Sigþórsson, hans 15 mark í 23 A landsleikjum.

Íslendingar fengu ágætis tækifæri til að bæta við marki, það besta fékk Hallgrímur Jónasson en skot hans af stuttu færi fór yfir markið.  Íslensku strákarnir héldu svo forystunni til leiksloka og eins marks sigur staðreynd fyrir framan 5.079 áhorfendur á Laugardalsvelli.