A karla - Jafntefli í Innsbrück
Íslendingar gerðu jafntefli gegn Austurríki í kvöld í vináttulandsleik sem leikinn var í Innsbrück. Lokatölur urðu 1 - 1 eftir að heimamenn höfðu leitt í leikhléi.
Fyrri hálfleikur var tilþrifalítill af hálfu íslenska liðsins og heimamenn voru aðgangsharðari í sóknaraðgerðum sínum. Eina mark hálfleiksins kom á 28. mínútu þegar Austurríkismenn komust í gegn eftir snögga sókn og Marcel Sabitzer kom boltanum framhjá Hannesi í markinu.
Íslenska liðið mætti mun ákveðnara til leiks í síðari hálfleikinn og það var ekki liðin mínúta af honum þegar jöfnunarmarkið kom. Arir Freyr Skúlason tók aukaspyrnu frá vinstri og þar var Kolbeinn Sigþórsson mættur á fjærstöng og skallaði boltann glæsilega í netið. Sóknaraðgerðir Íslendinga voru mun beittari í síðari hálfleiknum og Birkir Bjarnason var hársbreidd frá því að koma boltanum í netið á 62. mínútu og á lokamínútu leiksins komst Kolbeinn inn í sendingu á markvörð heimamanna en kom ekki skoti á markið. Austurríkismenn áttu líka sínar tilraunir og varði Hannes t.a.m. glæsilega á 65. mínútu.
Jafntefli sanngjörn og góð úrslit í þessum vináttulandsleik og undirbýr liðið sig nú fyrir vináttulandsleik gegn Eistlandi sem fram fer á Laugardalsvelli á miðvikudaginn. Leikurinn hefst kl. 19:15 og er miðasala í fullum gangi. Þetta verður síðasti leikur Íslands áður en undankeppni EM hefst en þá taka okkar strákar á móti Tyrkjum á Laugardalsvelli, þriðjudaginn 9. september.
Á blaðamananfundi eftir leikinn við Austurríki sagðist Lars Lagerbäck, annar af þjálfurum íslenska liðsins, hafa verið sáttari við seinni hálfleikinn en þann fyrri. Hann vildi meina að Austurríkismenn hefðu getað skorað fleiri mörk í fyrri hálfleik og að íslenska liðið hafi verið eilítið heppið að þeim hafi ekki tekist það, og heilt yfir fanns Lars heimamenn hafa verið betri aðilinn í leiknum. Hann var engu að síður ánægður með úrslitin og baráttuandann í liði Íslands, það væri styrkleikamerki að koma strax til baka og sýndi vel þann karakter sem byggi í íslenska liðinu.