• fim. 29. maí 2014
  • Landslið

"Stuðningsmenn hafa meiri þýðingu en fólk getur ímyndað sér"

islandcroatia2

Austurríki og Ísland mætast í vináttuleik A landsliða karla í Innsbrück á föstudag og hefst leikurinn, sem er í beinni útsendingu á Stöð 2 sport, kl. 18:30 að íslenskum tíma.  Þetta er fyrri leikurinn af tveimur í undirbúningi liðsins fyrir undankeppni EM 2016 sem hefst í haust.

Vefur KSÍ hitti landsliðsmiðverðina Ragnar Sigurðsson og Sölva Geir Ottesen á liðshótelinu í Austurríki og spjallaði við þá um komandi verkefni og fótboltann í Rússlandi.

Hvernig líst ykkur á leikinn á föstudaginn?

Sölvi:  Mér líst vel á þennan leik, hann er mikilvægur til að sjá hvar við stöndum og til að þjappa saman hópnum fyrir komandi verkefni.  Austurríska liðið er í 40. sæti á FIFA-listanum og þeir eru svipaðir að styrkleika og Tyrkland og Tékkland, það verður gaman að sjá hvar við stöndum á móti þeim.

Ragnar:  Ég er sammála Sölva, þetta er gott tækifæri til að sjá hvar við stöndum og og tel okkur eiga góða möguleika á að vinna leikinn. 

Austurríkismenn leika jafnan með stóra miðframherja.  Hvernig er að leika á móti þannig leikmönnum, er það mikið öðruvísi en að mæta minni og léttari framherjum?

Sölvi:  Áherslurnar eru öðruvísi. Maður spáir minna í svæðinu fyrir aftan sig, en er meira vakandi fyrir háum boltum og þarf að gæta þess að staðsetja sig rétt í fyrirgjöfum og háum sendingum inn í teiginn. 

Ragnar:  Það er svo sem ekkert auðveldara að fást við stór framherja, bara öðruvísi.  Við höfum spilað á móti stórum framherjum áður og vitum hvernig við eigum að verjast þeim. 

Hvernig er fótboltinn í Rússlandi?

Ragnar:  Boltinn í Rússlandi er öðruvísi en í Skandinavíu.  Í Skandinavíu er mikið um svæðisvörn, en í Rússlandi er þetta meira maður á mann.  Ég er t.d. að spila allt öðruvísi núna heldur en ég gerði hjá FCK í Danmörku, það er miklu meira um færslur og hreyfingu á vörninni, maður einbeitir sér bara að mestu að sínum manni. Mér finnst þetta fínt, maður tekur bara sinn mann og ef hver sér um sinn, þá virkar taktíkin, en ég hef svo sem enga skoðun á því hvort er betra, svæðisvörn eða maður á mann.

Sölvi:  Rússneska deildin er miklu sterkari deild en sú danska, sem er að flestum talin sú sterkasta á Norðurlöndum.  Sterkustu liðin eru með mjög góða framherja sem myndu standa sig vel í sterkustu deildum í heimi.  Hver einasti leikur er mikil áskorun.

Ragnar:  Rússneska deildin er miklu erfiðari, en það er líka skemmtilegt, því við viljum takast á við áskoranir, eins og allir íþróttamenn.

Sölvi:  Þú þarft virkilega að leggja þig fram í hverjum einasta leik.  Þarna eru leikmenn mjög teknískir, og flinkir á boltanum, með góða fyrstu snertingu.  Kannski er skipulagið aðeins minna en í Skandinavíu, því það er svolítið byggt á einstaklingsframtaki í sóknarleiknum.  Þarna eru leikmenn sem eru góðir að rekja boltann og taka menn á,  „dribblarar“ sem geta klárað leikina.  Sum liðin með virkilega góða einstaklinga sem vinna jafnvel leiki með einstaklingsframtaki, en vantar að sama skapi upp á skipulagið.

Hvernig líst ykkur á undankeppni EM 2016 sem hefst í haust?

Sölvi:  Þetta er erfiður riðill, það er klárt, en Íslendingar eru alltaf bjartsýnir.  Við erum sigurvegarar að eðlisfari, miklir keppnismenn sem vilja alltaf vinna alla bardaga.  Við ætlum okkur á þetta stórmót og höfum allir trú á því að við getum það.  En við þurfum að eiga mjög gott mót til að eiga möguleika.  Tyrklans, Tékkland, Holland og Kasakstan, þetta verða alt erfiðir leikir.  Lettland megum við ekki vanmeta, þeir hafa komist í lokakeppni EM, því megum við ekki gleyma.  Við erum fullir sjálfstrausts, trúin á okkar eigin getu er mikilvæg og getur fleytt okkur langt.  Viljinn er alltaf til staðar hjá Íslendingum.

Ragnar:  Ef Danir eða Svíar hefðu lent í þessum riðil, þá væru þeir líklega svartsýnir, á meðan við Íslendingar sjáum tækifærin.  Við ætlum okkur áfram og getum náð árangri gegn þessum liðum.  Þetta er það viðhorf sem hefur komið okkur svona langt, eins og í síðustu undankeppni, það bjóst enginn við þessum árangri sem við náðum, en með trú á okkar getu þá er allt mögulegt.  Við erum með gott lið og ætlum að standa okkur vel.

Stuðningur úr stúkunni skiptir miklu máli, eða hvað?

Ragnar:  Engin spurning.  Fólk á alltaf á mæta á leikina og styðja liðið, það hjálpar okkur gríðarlega mikið, því fleiri sem eru á vellinum og því meiri læti, því meiri kraft fáum við leikmennirnir.

Sölvi: Síðasta undankeppni var geðveik.  Árangurinn hefði aldrei náðst ef við hefðum ekki haft allan þennan stuðning og alla þessa stuðningsmenn í stúkunni.  Það er svo mikilvægt að sjá albláa stúku á þjóðarleikvanginum styðja við okkur.  Tólfan var gjörsamlega geðveik.  Þetta er það sem þú vilt sem fótboltamaður.  Þetta gefur manni auka orku.

Ragnar:  Fólk fattar ekki alltaf hvað þetta er mikilvægt, en málið er bara að á heimavelli ertu með þitt umhverfi og þína stuðningsmenn sem styðja við bakið á þér.  Það er erfitt að lýsa þessu í orðum, en upplifunin er algerlega mögnuð.

Sölvi:  Stuðningsmennirnir geta rifið liðið í gang þegar hlutirnir eru ekki að ganga upp hjá okkur.

Ragnar:  Stuðningsmennirnir mótivera okkur, þeir leggja sig 100% fram og eru jafn mótiveraðir og við í leikjunum.  Þeir rífa okkur í gang þegar á þarf að halda.  Við erum að spila fyrir þetta fólk sem er að styðja okkur.  Þetta hefur meiri þýðingu en fólk getur ímyndað sér.