Góður undirbúningur fyrir leikina við Svía
Í viðtali við austurríska fjölmiðla segjast Austurríkismenn nota vináttuleikinn við Ísland á föstudag til að undirbúa sig undir leikina við Svía í undankeppni EM 2016, en auk fyrrgreindra þjóða eru Rússar, Moldóvar, Svartfellingar og Liechtenstein-menn í G-riðli. Á blaðamannafundi á þriðjudag sat leikmaðurinn Andreas Ivanschitz fyrir svörum.
Ivanschitz hefur lengi verið á meðal lykilmanna Austurríkis, en hefur ekki verið fastamaður í liðinu upp á síðkastið. „Ég þarf ekki að vera í sviðsljósinu. Við eigum stórt verkefni framundan, sem er undankeppni EM 2016, og þegar þjálfarinn hefur not fyrir mig, þá er ég klár“.
„Íslendingar spila af krafti og hörku, eru sterkir í loftinu, en geta líka spilað góða knattspyrnu og beitt hættulegum skyndisóknum“ sagði Ivanschitz, og bætti við að hafa þyrfti góðar gætur á Gylfa Þór Sigurðssyni, sem væri frábær skotmaður. „Þetta verður góður undirbúningur fyrir leikina við Svía í undankeppni EM. Ísland og Svíþjóð hafa áþekkan knattspyrnustíl.“ Austurríkismenn munu undirbúa sig vel fyrir leikinn á föstudag. „Við þekkjum gæðin í íslenska liðinu og þeir munu ekki koma okkur á óvart.“
Nú þegar hafa meira en 10.000 miðar verið seldir á leikinn, en leikvangurinn í Innsbrück heitir Tivoli Stadion Tirol, er heimavöllur FC Wacker Innsbrück, og tekur um 15.000 manns í sæti. Leikvangurinn var byggður fyrir úrslitakeppni EM 2008 og tók þá 30.000 manns í sæti, en eftir keppnina var sætafjöldinn minnkaður.