Svissneskur sigur í Nyon
A landslið kvenna beið í dag, fimmtudag, lægri hlut gegn Sviss í undankeppni HM 2015, en liðin mættust á Colovray-leikvanginum í Nyon, rétt við höfuðstöðvar UEFA. Lokatölur leiksins voru 3-0. Svissneska liðið, sem er lang efst í riðlinum, er feykisterkt.
Íslenska liðið spilaði þéttan og vel skipulagðan varnarleik gegn öflugu svissnesku liði, sem var meira með boltann í fyrri hálfleik. Svisslendingar voru hættulegri í sóknarleiknum og náðu að skapa sér tvö vænleg færi áður en eina mark fyrri hálfleiks leit dagsins ljós. Markið skoraði Vanessa Bernauer á 33. mínútu, þegar hún fékk boltann fyrir opnu og auðu marki eftir klafs í teignum, þar sem tveir varnarmenn og markvörður íslenska liðsins höfðu komist fyrir markskot.
Seinni hálfleikur byrjaði með sama krafti og bæði lið höfðu leikið með í þeim fyrri, mikill hraði og ákefð. Sviss fékk gott færi á 60. mínútu, en Þóra varði þá hörkuskot frá vítateig. Svissneska liðið lék vel í leiknum og bætti við öðru marki á 69. mínútu, þegar Vanessa Bürki skoraði laglegt mark eftir hraða sókn. Íslenska liðið sótti í sig veðrið, en náði ekki að ógna svissneska markinu verulega. Þriðja mark Sviss kom á 80. mínútu. Löng þversending milli kanta setti Löru Dickenmann eina gegn Þóru í markinu, og Dickenmann kláraði færið með föstu skoti í hornið fjær.
Það er deginum ljósara að lið Sviss er mjög sterkt og staða þess í riðlinum er verðskulduð, efsta sætið og heil 19 stig úr 7 leikjum. Liðið hefur aðeins misst tvö stig, og var það jafntefli gegn Dönum. Næstu lið eru Ísland og Ísrael með 9 stig.