U19 kvenna - Sigur gegn Færeyjum á undirbúningsmóti UEFA
Stelpurnar í U19 lögðu stöllur sínar frá Færeyjum í morgun í fyrri leik liðsins á undirbúningsmóti UEFA en leikið er í Færeyjum. Lokatölur urðu 2 - 0 fyrir Ísland sem leiddi með einu marki í leikhléi.
Íslenska liðið hafði undirtökin frá byrjun en það var Hulda Hrund Arnarsdóttir sem skoraði fyrra mark Íslands á 34. mínútu eftir góðan undirbúning hjá Öldu Ólafsdóttur. Hulda Hrund átti svo fína sendingu á Esther Rós Arnarsdóttur sem bætti við öðru marki Íslands á 51. mínútu og þar við sat í markaskorun.
Tómas Þóroddsson sendi okkur eftirfarandi umfjöllun um leikinn:
"Íslenska U19 ára landsliðið kvenna lek í dag sinn fyrsta leik í æfingamóti UEFA sem haldið er í Færeyjum. Spilað var gegn heimastúlkum og unnu íslensku stúlkunar 2-0.
Byrjunarliðið Íslands gegn Færeyjum var eftirfarandi: Ásta Vigdís, Hrefna Guðrún, Heiddís Sigurjóns, Heiða Rakel, Arna Dís, Rakel Jóns, Guðrún Karitas fyrirliði, Lilly Rut, Alda Ólafs, Hulda Hrund og Esther Rós.
Strax á 4. min fékk Guðrún Karitas gott færi eftir undirbúning frá Rakel og Huldu, en hún skaut yfir. Á 21. min björguðu Færeyingar á línu skalla frá Heiddísi eftir horn. Þegar rúmur hálftími var liðin af leiknum átti Alda fína sendingu á Esteri, en skot hennar var varið.
Á 34. min átti Alda góðan kross fyrir á Huldu Hrund, hún tók boltann niður og smelti honum upp í þaknetið og kom Íslendingum yfir. Mjög vel gert hjá þeim báðum. Fátt marvert gerðist fram að hléi og staðan var því 0-1 í hálfleik.
Í upphafi seinni hálfleiks slapp ein Færeysk stúlka inn fyrir vörn Íslendinga, en Ásta staðsetti sig vel og varði frá henni. Á 51. min átti Hulda Hrund flotta sendingu fyrir, þar var Ester Rós mætti og kláraði færið sitt virkilega vel og staðan því orðin 0-2.
Mínútu síðar gerði Úlfar þjálfari þrefalda skiptingu. Þær Andrea Rán, Hulda Ósk og Sigríður María komu inn fyrir Huldu Hrund, Lillý Rut og Guðrunu Karitas.
Á 56. min kom Hulda Ósk með flottan bolta fyrir á Ester Rós, en fínt skot hennar var varið. Mínútu síðar var Hulda Ósk í ágætis færi, en náði ekki að skora. Á 60. min tók Andrea Rán aukaspyrnu á kollinn á Örnu Dís og flottur skalli hennar fór rétt yfir.
Á 64. min kom fjórföld skipting. Þær Sabrina Lind, Katla Rún, Málfríður Anna og Berglind Hrund komu inn fyrir Örnu Dís, Hrefnu, Heiddísi og Ástu Vigdísi.
Á 65. min átti Sigga Maja fínt skot sem fór rétt framhjá. Tveimur mínútum seinna átti Hulda sendingu yfir á Ester Rós sem átti flottan skalla sem var vel varinn. Á 70. min átti Rakel fint skot rétt framhjá. Fleirri góð færi litu ekki dagsins ljós og sanngjarn 0-2 sigur Íslendinga því í höfn.
Íslenska liðið mætir Skotum á morgun í seinni leik sínum á þessu móti og hefst sá leikur snemma eða kl. 09:00 að íslenskum tíma."
Mynd: Byrjunarlið Íslands gegn Færeyjum í dag