• sun. 13. apr. 2014
  • Landslið

U17 kvenna í Belfast:  Flottur 4-0 sigur á Wales

U17 kvenna í Belfast
P4133643

U17 landslið kvenna, skipað leikmönnum fæddum 1998 og síðar, byrjaði undirbúningsmót UEFA fyrir þennan aldursflokk ansi vel með flottum 4-0 sigri á Wales í dag, sunnudag.  Mótið fer fram í Belfast á Norður-Írlandi og auk Íslands og Wales leika heimamenn og Færeyingar í mótinu.  U17 landslið karla, einnig skipað leikmönnum fæddum 1998 og síðar, lék einmitt í sömu borg gegn sömu þjóðum í sams konar móti í vikunni sem leið.

Íslenska liðið leiddi með tveimur mörkum í hálfleik.  Fyrst skoraði Andrea Mist Pálsdóttir með þrumuskoti af 30 metra færi. Óverjandi negla.  Jasmín Erla Ingadóttir bætti við öðru marki fyrir Ísland á 37. mínútu, fékk sendingu frá vinstri frá Kristínu Þóru Birgisdóttur og kláraði færið.  Seinni hálfleikur byrjaði ansi vel.  Elena Brynjarsdóttir skoraði strax á fyrstu mínútu og staðan orðin 3-0 fyrir Ísland.  Leikurinn róaðist nokkuð eftir þetta, en eftir 66 mínútur varð staðan þó orðin 4-0 fyrir Ísland. Anna Rakel Pétursdóttir skoraði með þrumufleyg af 25 metra færi.

Ekki var meira skorað í leiknum og flottur 4-0 sigur í fyrsta leik í mótinu í höfn.  Næsti leikur er strax á mánudag kl. 16:00 að íslenskum tíma og verður mótherjinn þá lið heimamanna, Norður-Íra.

Umfjöllun um leikinn frá Tómasi Þóroddssyni, fararstjóra:

Íslenska kvennalandsliðið skipað leikmönnum undir 17 ára hóf leik í dag í undirbúningsmóti fyrir evrópukeppnina. Leikið er í N-Írlandi og eru þær með nágranaþjóðunum Wales, Færeyjum og N-Írum í riðli.

Fyrsti leikurinn var gegn Wales og var byrjunarliðið eftirfarandi: Harpa Jóhannsdóttir, Karen Sif, Ingibjörg Rún, Ingibjörg Lúcía, Saga Líf, Andrea Mist, Anna Rakel, Jasmín Erla, Una Margrét, Kristín Þóra og Elena Brynjarsdóttir.

Íslenska liðið byrjað leikinn betur og fyrsta færið kom upp úr horni. Una átti sendingu á Jasmín sem skallaði rétt yfir. A 11. min tók Andrea Mist boltann niður og smelti honum undir markslána af um 30 metra færi og Ísland komið yfir 1-0. Stórglæsilegt mark.

Mínútu síðar komst Elena ein í gegn og skoraði, aðstoðardómarinn dæmdi rangstöðu sem var vægast sagt tæp. Mínútu síðar komst Wakes í gott færi sem ekkert varð úr. Nokkrum mínútum seinna slapp Elena ein í gegn en markmaður andstæðingana varði vel.

Þegar hálftími var liðin af leik átti Kristín Þóra góðan sprett upp vinstri kant, kom með nákvæma sendingu á vel tímasett hlaup hjá Jasmín sem átti ekki í vandræðum með að skora og staðan orðin 2-0 fyrir Island.

Fimm mínútum siðar varði Harpa mjög vel aukaspyrnu Wales-verja. Rétt fyrir hálfleik slapp Jasmín ein í gegn, en markvörður Wales varði vel frá henni. Staðan því sanngjörn 2-0 í hálfleik.

Það var ekki liðin mínúta af seinni hálfleik Elena var búinn að setja þriðja mark Íslands. Fjórum mínútum síðar áttu Walesku stúlkunar skot í varnarmann og í slá. Mínútu síðar átti Anna Rakel frábæra sendingu inn á Kristínu Þóru, en markmaður Wales varði mjög vel frá henni.

Á 48. min sluppu Walesku stúlkunar í gegn, en Harpa varði mjög vel. Á 58. min gerð Úlfar þjálfari þrefalda skiptingu. Agla María, Andrea Celeste og Kristín Alfa komu inn fyrir Elenu, Kristínu Þóru og Sögu Líf. Á 61. min prjónaði Jasmín sig í gegn eftir mjög snyrtilegt spil og fór flott skot hennar í stöng. Andrea Celeste var svo nálægt því að skora þrem mínútum síðar.

Fjórföld skipting kom á 65. min. Þá komu Dagmar, Harpa, Stefanía Ásta og Telma inn fyrir Andreu Mist, Ingibjörgu Rún, Jasmín og Hörpu. Mínútu síðar hamraði Anna Rut boltann upp í vinkilinn af 25 metrum, virkilega fallegt mark og óverjandi fyrir markmanninn. Staðan því orðin 4-0 fyrir Ísland.

Þegar um 10 min voru eftir af leiknum átti Kristín Alfa frábæran sprett upp kantinn, gaf fyrir á Unu, en varnarmaður komst fyrir skot hennar. Rétt fyrir leikslok átti Stefanía Ásta góða sendingu á Andreu Celeste, flott skot hennar var vel varið. Stuttu síðar flautaði dómari leiksins til loka og fjögur null sigur Íslendinga sanngjarn.

Næsti leikur er á morgun mánudag gegn heimastúlkum og byrjar hann klukkan 16.00 að Íslenskum tíma. En þess má geta að þær N- Írsku unnu Færeyjar 4-0