• fös. 11. apr. 2014
  • Landslið

U17 karla í Belfast:  Fimm marka sigur á Færeyingum

uefa-logo-biglandscape
uefa-logo-biglandscape

U17 landslið karla, skipað leikmönnum fæddum 1998 og síðar, vann öruggan 5-0 sigur í lokaleik sínum í sérstöku undirbúningsmóti UEFA sem fram fór í Belfast á Norður-Írlandi.  Íslenska liðið hafnaði því í þriðja sæti með þrjú stig, eftir eins marks töp í leikjum gegn Wales og Norður-Írlandi.


Eins og tölurnar gefa til kynna var sigur íslenska liðsins verðskuldaður og öruggur og voru mörkin í leiknum hvert öðru glæsilegra.  Tvö þeirra komu í fyrri hálfleik, með tveggja mínútna millibili, á 53. og 37. mínútu. Fyrst skoraði Dagur Austmann Hilmarsson með fallegum skalla eftir hornspyrnu, og svo skoraði Sveinn Aron Guðjohnsen með flottu skoti beint úr aukaspyrnu neðst í markhornið.  Viktor Júlíusson náði þriggja marka forystu þegar hann skoraði með glæsilegu skoti utan teigs á 70. mínútu, óverjandi í markhornið.  Kristófer Konráðsson skoraði fjórða markið á 74. mínútu með hörkuskoti utan teigs, boltinn fór í stöngina og inn.  Erlingur Agnarsson innsiglaði svo 5-0 sigur þegar hann fékk stungusendingu inn fyrir vörnina og kláraði færið vel.