A kvenna - Allir leikmenn með á æfingu dagsins
Allir leikmenn hópsins tóku þátt í æfingu dagsins á Cenetary vellinum á Möltu en á sama velli mætast Malta og Ísland í undankeppni HM á morgun, fimmtudaginn 10. apríl. Leikurinn hefst kl. 14:00 að staðartíma eða kl. 12:00 að íslenskum tíma.
Þó svo að heitt hafi verið í veðri í dag þá lék vindur um íslenska hópinn á æfingu í dag og sá til þess að kæla leikmenn niður. Eins og áður sagði þá voru allir leikmenn með á æfingunni í dag en Hallbera Gísladóttir er þó áfram undir eftirliti sjúkrateymis íslenska liðsins vegna eymsla í hásin.
Íslenska liðið er sem stendur í öðru sæti riðilsins en þjóðirnar hafa leikið mismunandi marga leiki. Sviss er hinsvegar í efsta sæti og Malta í því neðsta. Mótherjar Íslands á morgun hafa leikið fjóra leiki og tapað þeim öllum. Tveir þeirra hafa verið á heimavelli og töpuðu 0 - 5 gegn Dönum og 0 - 3 gegn Serbum. Útileikirnir töpuðust einnig, 2 - 0 gegn Ísrael og 11 - 0 gegn Sviss.
Það verða hollenskir dómarar sem dæma leikinn á morgun og verður fylgst með honum á Facebook síðu KSÍ. Einn annar leikur fer fram á morgun í riðli Íslands þegar topplið Sviss tekur á móti Dönum.