Naumt tap gegn Wales
U17 landslið karla, skipað leikmönnum fæddum 1998 og síðar, tapaði naumlega í dag, þriðjudag, fyrir Wales í sérstöku undirbúningsmóti UEFA, sem fram fer í Belfast á Norður-Írlandi. Lokatölur leiksins urðu 2-1 fyrir welska liðið og komu öll mörkin í fyrri hálfleik. Norður-Írland og Færeyjar mætast svo kl. 13:00 í dag.
Lið Wales var sterkara fyrstu mínúturnar í leiknum en okkar drengir náðu fljótlega áttum og leikurinn jafnaðist. Fyrsta markið var welskt og kom á 26. mínútu, þegar skot sóknarmanns Wales hafði viðkomu í varnarmanni íslenska liðsins, breytti þannig um stefnu og hafnaði í íslenska markinu. Aðeins mínútu síðar kom jöfnunarmarkið. Sending varnarmanns Wales til baka endaði á einhvern óskiljanlegan hátt í marki þeirra. Markvörðurinn ætlaði að leggja boltann fyrir sig með vinstri fæti yfir á þann hægri, en ekki fór það betur en svo að hann sópaði knettinum í netið. Sjálfsmark og staðan orðin 1-1. Wales náði aftur forystunni á 35. mínútu með marki eftir hornspyrnu og þar við sat, því ekkert mark var skorað í seinni hálfleik, sem var jafn og fátt um marktækifæri.
Ekki er löng hvíld milli leikja, því næsta umferð er strax á morgun, miðvikudag, og eru mótherjar Íslands þá heimamenn, Norður-Írar, og hefst sá leikur kl. 16:00 að íslenskum tíma.