• lau. 05. apr. 2014
  • Landslið

Leikið gegn Ísrael í kvöld - Viðtal við Frey Alexandersson

Þjálfarateymi kvennalandsliðsins, Ólafur Pétursson, Freyr Alexandersson og Ásmundur Haraldsson
Freyr,-Asi-og-Oli

Ísland mætir Ísrael í kvöld í undakeppni HM 2015 og fer leikurinn fram á Ramat Gan vellinum í Tel Aviv.  Leikurinn hefst kl. 20.30 að staðartíma eða kl. 17:30 að íslenskum tíma.  Við heyrðum aðeins í landsliðsþjálfaranum Frey Alexanderssyni fyrir leikinn.

Hvernig líst þér á ástandið á hópnum?

Mjög vel, allir leikmenn heilir, frískir og tilbúnir í þennan leik.

Hvernig hefur þér litist á aðstæður hér í Tel Aviv?

Þær hafa komið skemmtilega á óvart, virkilega fallegt hérna og loftslagið eins og best verður á kosið.  Erum hérna á góðum tíma þannig að hitastigið er þægilegt.  Hótelið er framar vonum sem og maturinn hérna og allur aðbúnaður.  Æfingaaðstaðan verið að langmestu frábær og keppnisvöllurinn er fyrsta flokks.

Leikið í kvöld gegn Ísrael, hvað veistu um mótherja kvöldsins?

Við höfum einbeitt okkur að því að fara yfir þá þrjá leiki sem þær hafa leikið hingað til í riðlinum.  Allir þessir leikir hjá þeim hafa verið á heimavelli.  Þær töpuðu nokkuð stórt gegn Sviss en unnu Serbíu og Möltu sannfærandi og eru klárlega á uppleið, sitja í öðru sæti í okkar riðli.  Þær leituðu fyrir tveimur árum eftir bandarískum leikmönnum með ísraelskt ríkisfang og fengu þannig þrjá sterka leikmenn sem eru tvímælalaust er hægt að telja til lykilmanna liðsins.

Við eigum von á því að þær liggi til baka og sæki hratt, eru fljóta að skipta á milli varnar og sóknar og gera það vel.  Þær beita hápressu nokkrum sinnum í hverjum leik og verðum við að vera vakandi fyrir því.  Liðið er mjög baráttuglatt og greinilegt að það er mikil stemning og samheldni í liðinu.

Hvernig munið þið leggja ykkar leik upp gegn Ísrael?

Við munum halda áfram að vinna í því sem við höfum gert síðustu mánuði og bæta okkar leik þannig.  Við þurfum að stjórna hraðanum í leiknum, getað pressað hátt á vellinum og refsað þá fyrir mistök andstæðinganna.  Á sama tíma verðum við að hafa þolinmæði, einbeitingu og hafa trú á gæðum okkar eigin liðs.

Leikurinn gegn Ísrael hefst í dag kl. , laugardaginn 5. Apríl, 17.30 að íslenskum tíma og munum við fylgjast með leiknum á Facebook síðu KSÍ.  Einnig er bent á textalýsingu á heimasíðu UEFA.