• fös. 04. apr. 2014
  • Landslið

A kvenna - Æft var á keppnisvellinum í dag

A landslið kvenna
ksi-Akvenna

Kvennalandsliðið undirbýr sig nú af kappi fyrir leikinn mikilvæga gegn Ísrael, í undankeppni HM, sem fram fer á morgun, laugardaginn 5. apríl.  Leikurinn fer fram á þjóðarleikvangnum, Ramat Gan, og hefst kl. 17:30 að íslenskum tíma.

Vel fer um hópinn í Tel Aviv og eru aðstæður allar eins og best er á kosið.  Æft var tvivar í dag, fyrri æfingin fór fram á æfingavelli í um hálftíma frá hóteli íslenska liðsins.  Var sá völlur algjörlega frábær, algjört teppi, og hafði landsliðsþjálfarinn orð á því að þetta væri besti grasvöllur sem hann hafi komið á og er hann vanur góður frá vallarstjóra Leiknisvallar.  Seinni æfingin fór fram á keppnisvellinum, þjóðarleikvangnum Ramat Gan, sem einnig er í frábæru ásigkomulagi.  Nokkuð heitt var í dag og sólin skein skært.  Æfingarnar gengu mjög vel og allir leikmenn hópsins voru með á fullu á æfingunum.

Leikurinn á morgun hefst kl. 20:30 að staðartíma, nokkuð seint en ástæðan er að heimamenn halda hvíldardaginn heilagan frá sólsetri á föstudegi til sólseturs á laugardegi.  Leikurinn hefst því ekki fyrr en sól er sest og verður því leikið í flóðljósum.

Ísrael er sem stendur í öðru sæti riðilsins, hefur unnið Serbíu og Möltu en biðu lægri hlut gegn Sviss.  Liðið hefur tekið framförum á síðustu misserum og má því búast við hörkuleik gegn heimstúlkum á morgun.

Fylgst verður með helstu atriðum leiksins á Facebook síðu KSÍ og einnig er bent á textalýsingu á heimasíðu UEFA.