• fim. 03. apr. 2014
  • Landslið

Aldrei áður mætt Ísrael og Möltu

800px-Ramat_Gan_Stadium

A landslið kvenna mætir Ísrael og Möltu í undankeppni HM 2015 á næstu dögum.  Fyrst er leikið við Ísrael í Ramat Gan laugardaginn 5. apríl, og svo við heimamenn á Möltu þann 10. apríl.  Ísland hefur mætt hvorugu liðinu áður.

Ísrael er sem stendur í öðru sæti riðilsins í undankeppni HM 2015, með tvo sigra og eitt tap.  Tapið kom gegn Sviss, sem hefur unnið alla sína fjóra leiki hingað til.  Lið Ísraels tók fyrst þátt í undankeppni stórmóts þegar það hafnaði í fjórða sæti af fimm liðum riðilsins í undankeppni HM 1999.  Síðan þá hefur Ísrael tekið þátt í forkeppnum og/eða undankeppnum allra stórmóta, án þess þó að vera nálægt því að ná alla leið inn í lokakeppnina.  Í undankeppni EM 2014 hafnaði liðið í neðsta sæti síns riðils, án stiga í átta leikjum.  Leikurinn við Ísrael fer fram á Ramat Gan leikvanginum í samnefndri borg.

Malta tók fyrst þátt í undankeppni stórmóts fyrir EM 2005 og lauk þá keppni án stiga í átta leikjum.  Næst tók liðið þátt í undankeppni HM 2007 og krækti þá í sitt fyrsta stig í undankeppni stórmóts, en hafnaði í neðsta sæti riðilsins.  Fyrir EM 2009 lék liðið í forkeppni, en fékk aðeins eitt stig og náði ekki að komast í undankeppnina.  Í undankeppni HM 2011 tapaði liðið öllum sínum leikjum og fékk nokkra stóra skelli.  Malta var nálægt því að komast upp úr forkeppninni fyrir EM 2013 – vann einn sigur og gerði eitt jafntefli – og greinilegt að liðið hafði tekið framförum.  Þær framfarir skiluðu sér þegar var leikið í forkeppni vegna undankeppni HM 2015, því þar vann Malta tvo sigra og gerði eitt jafntefli, og skoraði jafnframt 9 mörk í leikjunum þremur.  Leikurinn við Ísrael fer fram á Centenary Stadium.