• þri. 01. apr. 2014
  • Landslið

A landslið kvenna á faraldsfæti

Kvennalandsliðið á faraldsfæti
a-kvenna-faraldsfotur

A landslið kvenna heldur í 10 daga reisu suður á bóginn þriðjudaginn 2. apríl.  Tilgangur ferðarinnar er tveir leikir í undankeppni HM 2015, gegn Ísrael og Möltu.  Ferðalagið er langt og viðamikið og er stefnan sett á að koma heim með sex stig í farteskinu.


Það er ekki einfalt að safna saman landsliði þegar leikmenn eru dreifðir um mörg lönd.  Þessi verkefni þekkja starfsmenn landsliða hjá KSÍ vel og breytir þá engu hvort um er að ræða A landslið karla eða kvenna, U21 landslið karla, og jafnvel yngri landslið þar sem sífellt fleiri leikmenn eru á mála hjá erlendum félagsliðum.  

Hópurinn sem ferðast frá Íslandi heldur til Lundúna og þaðan til Tel Aviv.  Í Tel Aviv safnast allur hópurinn saman samdægurs og æfingar og undirbúningur fyrir leikinn við Ísraela hefst að morgni 3. apríl.  Leikurinn sjálfur fer fram á Ramat Gan leikvanginum í samnefndri borg að kvöldi til laugardaginn 5. apríl.  Ekki gefst nema örfárra klukkustunda hvíld og svefn eftir leikinn, því allur hópurinn þarf að rífa sig upp um miðja nótt til að halda áleiðis til Möltu.  Fyrst er flogið til München og þaðan til Möltu, því ekki er um að ræða bein flug þangað frá Tel Aviv.  Komið er til Möltu um hádegisbil þann 6. apríl og líklegt að sá dagur verði nýttur í hvíld og endurheimt eftir átök leiksins kvöldið áður.  Leikurinn við heimamenn fer svo fram fimmtudaginn 10. apríl á Centenary Stadium.  Eldsnemma morguns þann 11. apríl hefst svo ferðalagið heim á leið og fer hver og einn leikmaður til síns heima, vonandi með stigin sex í handfarangri ...

Landakort - Evrópa