• mið. 12. mar. 2014
  • Landslið

A kvenna - Þriðja sætið tryggt á Algarve með sigri á Svíum

Algarve-2014---Island---Svithjod---0285

Ísland tryggði sér þriðja sætið á Algarve mótinu sem lýkur í dag en þær lögðu Svía í frábærum leik, 2 - 1.  Þetta er aðeins í annað skiptið sem Ísland leggur Svíþjóð hjá A landsliði kvenna í 15 leikjum.

Það var ljóst strax frá upphafi að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt, baráttan gríðarlega mikil og ástralski dómarinn hafði í nógu að snúast.  Leikurinn var í algeru jafnvægi en á 28. mínútu komst Sara Björk Gunnarsdóttir ein í gegn og renndi boltanum í netið.  Aðeins þremur mínútum síðar komst Harpa Þorsteinsdóttir í gegn og í netinu hafnaði boltinn.  Svíar fóru svo að sækja meira er leið undir lok hálfleiksins og á lokamínútu hans varði Þóra glæsilega úr dauðafæri.

Svíar sóttu meira í síðari hálfleik en íslenska liðið gaf fá færi á sér, varðist skynsamlega og sænska liðinu gekk illa að skapa sér marktækifæri.  Guðbjörg varði glæsilega frá þeim á 75. mínútu og varnarmenn hreinsuðu á marklínu í kjölfarið.  Stuttu síðar vildi íslenska liðið fá vítaspyrnu þegar Sara virtist vera toguð niður í teignum en ekkert var dæmt.  Íslenska liðið átti svo skot í stöng á marki Svía en á 90. mínútu minnkuðu Svíar muninn eftir góða sókn.  Fjórum mínútum var bætt við venjulegan leiktíma en íslenska liðið hélt út með mikilli baráttu og miklum vilja.

Þriðja sætið á Algarve staðreynd sem er frábær árangur og sá næstbesti hjá liðinu á þessu sterka móti.

Leikskýrsla

Myndir og viðtöl má finna á Facebook-síðu KSÍ.