Fyrri fundur leyfisráðs í ferlinu fyrir 2014
Fyrri fundur leyfisráðs í leyfisferlinu fyrir keppnistímabilið 2014 fór fram í kvöld, mánudagskvöld. Þar fjallaði ráðið um leyfisumsóknir allra 24 félaganna sem undirgangast leyfiskerfið, þ.e. umsóknir allra félaga í efstu tveimur deildum karla.
Ekki voru gefin út nein þátttökuleyfi á fundi leyfisráðs í kvöld og bíða þau öll lokaafgreiðslu á seinni fundi ráðsins, sem fram fer næstkomandi föstudag. Mannvirkjanefnd hefur lagt fram til stjórnar KSÍ tillögur um útgáfu vallarleyfa fyrir keppnisvelli félaga í þessum deildum og bíða þær tillögur staðfestingar stjórnarinnar. Niðurstaða leyfisráðs var sú að bíða með endanlega afgreiðslu allra leyfisumsókna þar til stjórn KSÍ hefur fjallað um vallarleyfin og tillögur mannvirkjanefndar á fundi sínum, sem fram fer á fimmtudag.
Eins og greint er frá hér að framan fer seinni fundur leyfisráðs í þessu leyfisferli fyrir keppnistímabilið 2014 fram á föstudag og á þeim fundi mun ráðið taka lokaákvarðanir um veitingu þátttökuleyfa.