A kvenna - Sætur sigur á Noregi
Stelpurnar unnu góðan sigur á Noregi í dag á Algarve mótinu en þetta var annar leikur Íslands á mótinu. Lokatölur urðu 2 - 1 fyrir íslenska liðið eftir að markalaust hafði verið í leikhléi.
Fyrri hálfleikur var jafn þó svo að norska liðið hafi verið meira með boltann. Liðin fengu sitthvort dauðafærið í hálfleiknum, Elín Metta gerði vel að komast upp að markteigshorni og renndi boltanum fyrir markið en enginn leikmanna Íslands náði að koma tánni í boltann.
Í síðari hálfleiknum var íslenska liðið sterkari aðilinn og strax á 47. mínútu kom Mist Edvardsóttir liðinu yfir með skallamarkið eftir hornspyrnu. Stelpurnar fengu svo góð tækifæri til að bæta við marki. Dagný Brynjarsdóttir var sérstaklega aðgangshörð en hún fékk þrjú fín marktækifæri. Það var því þvert gegn gangi leiksins að Noregur jafnaði á 81. mínútu með marki úr vítaspyrnu. En aðeins fjórum mínútum síðar kom Harpa Þorsteinsdóttir okkar stelpum yfir að nýju með marki eftir fyrirgjöf frá Hallberu Gísladóttur. Norðmenn reyndu, sem von var, ákaft að jafna metin og í uppbótartíma fengu þær gott færi en Þóra Helgadóttir, í sínum 100. landsleik, varði stórkostlega.
Íslenski hópurinn fagnaði sigrinum innilega í leikslok en framundan er svo síðasti leikur riðlakeppninnar á mánudaginn þegar Kínverjar verða mótherjarnir.
Viðtöl og myndir úr leiknum má finna á Facebook-síðu KSÍ.