• mið. 05. mar. 2014
  • Landslið

Velskur 3-1 sigur í Cardiff

Úr leik Wales og Íslands (mynd frá faw.org.uk)
z-FAW96004News2

Það er óhætt að segja að dýrasti knattspyrnumaður heims, Gareth Bale, hafi átt góðan dag í Cardiff þegar Wales mætti Íslandi í vináttulandsleik.  Bale, sem leikur eins og kunnugt er með Real Madrid á Spáni, lagði upp tvö fyrstu mörk heimamanna og skoraði svo það þriðja í 3-1 sigri á Íslendingum. 

Heimamenn voru sterkari framan af fyrri hálfleik og náðu forystunni með skallamarki frá James Collins.  Bale tók þá aukaspyrnu frá hægri kanti og sendi hann í átt að vítapunktinum, þar sem Collins sneiddi knöttinn í fjærhornið framhjá Hannesi Þór Halldórssyni í íslenska markinu.  Þegar leið á fyrri hálfleikinn fór íslenska liðið að ná góðu samspili og var sterkari aðilinn.  Jóhann Berg Guðmundsson jafnaði metin á 27. mínútu með vinstri fótar skoti úr vítateignum, sem hafði viðkomu í varnarmanni á leið sinni í netið. 

Lið Wales var sterkara í seinni hálfleik þó íslenska liðið hafi átt ágæta spretti.  Títtnefndur Bale sýndi að hann er heimsklassa leikmaður og var maðurinn á bak við annað mark Wales-manna.  Hann ógnaði íslenska markinu á 64. mínútu og náði skoti sem var varið á marklínu, en Sam Vokes var fyrstur að átta sig og stangaði boltann í netið af mjög stuttu færi.  Næst reif Bale lausan á 70. mínútu, skeiðaði upp allan völlinn og skoraði með hnitmiðuðu vinstri fótar skoti í markhornið.

Fátt markvert gerðist eftir þetta, þó Ísland hafi verið nærri því að skora í blálokin þegar skalli eftir hornspyrnu var varinn á marklínu.

Næsti leikur A landsliðs karla er vináttuleikur við Austurríki í Innsbrück þann 30. maí.