• mið. 05. mar. 2014
  • Landslið

Grátlegt tap hjá U21 karla í Astana

Byrjunarlið U21 karla gegn Kasakstan
u21-isl-kas-byrjunarlid

U21 landslið karla tapaði með grátlegum hætti 3-2 gegn Kasakstan í undankeppni EM 2015, en leikið var í Astana í Kasakstan í dag, miðvikudag.   Heimamenn leiddu með tveimur mörkum í hálfleik og komu bæði mörkin snemma leiks, fyrst eftir sjö mínútur og svo tíu mínútum síðar. Í seinni hálfleik kom íslenska liðið tvíeflt til baka og jafnaði leikinn með tveimur mörkum með stuttu millibili, fyrst frá Hólmberti Friðjónssyni og svo frá Hirti Hermannssyni, á 60. og 67. mínútu. Hólmbert taldi sig svo hafa bætt þriðja markinu við, en það var dæmt af þar sem dómari leiksins taldi knöttinn hafa farið í hönd Hólmberts, en Celtic-maðurinn var mjög ósáttur við þann dóm. Heimamenn misstu svo mann af velli með rautt spjald á 86. mínútu, en náðu að hirða öll stigin þrjú með marki á 89. mínútu.  Íslenska liðið hafði alla burði til að klára leikinn eftir erfiðan fyrri hálfleik - en lukkan var ekki með strákunum í dag.

Staðan í riðlinum er nú þannig að Frakkar eru efstir með fullt hús eftir 6 leiki, 18 stig, Íslendingar í öðru sæti með 12 og Kasakstan er í þriðja sæti með 9 stig.  Síðustu fjórir leikir riðilsins fara fram í september og þá mætir Ísland fyrst Armenía á heimavelli og svo Frökkum ytra.  Þrátt fyrir úrslit dagsins er Ísland í vænlegri stöðu og stefnir enn hraðbyri í umspil um sæti í lokakeppninni.