Borgun framlengir farsælu samstarfi við KSÍ
Borgun hefur framlengt samstarfssamningi sínum við Knattspyrnusamband Íslands til fjögurra ára. Borgun hefur verið einn af bakhjörlum KSÍ og mun áfram vera meðal þeirra öflugu fyrirtækja sem hafa séð sóknarfærin í því að vera öflugur samherji KSÍ.
Borgun hefur jafnframt fleiri öflugar tengingar við knattspyrnu á Íslandi en keppt hefur verið um hinn eftirsótta Borgunarbikar undanfarin ár og verður það gert áfram.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segir það fagnaðarefni að Borgun hafi ákveðið að vera áfram bakhjarl sambandsins. „KSÍ hefur til langs tíma átt einkar gott samstarf við Borgun og það er ánægjulegt að það haldi áfram. Borgun hefur í samstarfi við KSÍ unnið að verkefninu - leikur án fordóma – og svo verður áfram.”
Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, tekur í sama streng og segir samstarfið vera mikilvægt fyrir fyrirtækið. „Það er ánægjulegt og mikill heiður fyrir Borgun að vera styrktaraðili KSÍ. Við höfum átt farsælt samstarf við KSÍ frá árinu 2003 og munum halda því áfram með samkomulaginu sem gert er núna.”