Skiladagur fjárhagsgagna er fimmtudagurinn 20. febrúar
Fimmtudagurinn 20. febrúar er skiladagur fjárhagsgagna í leyfisferlinu fyrir keppnistímabilið 2014. Þau félög sem undirgangast leyfiskerfið, þ.e. félög í efstu tveimur deildum karla, þurfa þá að skila til leyfisstjórnar ársreikningum sínum og öðrum fylgigögnum.
Viðmiðunarreglur um fjárhagsstöðu félaga
Í leyfisferlinu fyrir keppnistímabilið 2014 tóku gildi viðmiðunarreglur um fjárhagsstöðu þeirra félaga sem undirgangast leyfiskerfið. Annars vegar er um að ræða reglur um eiginfjárstöðu og hins vegar um skuldabyrði. Segja má að þessar viðmiðunarreglur gjörbreyti í raun þeim fjárhagslegu kröfum sem gerðar eru til þeirra félaga sem undirgangast leyfiskerfið. Reglurnar voru fyrst kynntar fyrir aðildarfélögum KSÍ haustið 2012 og hafa síðan verið kynntar á tveimur fundum með leyfisfulltrúum félaganna (desember 2012 og desember 2013) og tveimur fundum með endurskoðendum félaga (janúar 2013 og janúar 2014).
Jákvæð eiginfjárstaða
Krafa er gerð um jákvæða eiginfjárstöðu. Grunnreglan er sú að félag sem er með / lendir í neikvæðri eiginfjárstöðu fær tvö ár til að bæta úr því. Aukaaðlögun í byrjun: Leyfisumsækjandi með verulega neikvæða eiginfjárstöðu (meira en 10% af knattspyrnulegum rekstrartekjum) getur fengið tveggja ára auka aðlögun að forsendunni, en þarf að sýna fram á bætta stöðu eftir tvö ár (lækkun um 40%) til að fá það. Gildir til loka leyfisárs 2017.