• lau. 15. feb. 2014
  • Ársþing

Setningarræða formanns á 68. ársþingi KSÍ 

Arsthing-KSI-2014---Geir-Thorsteinsson

Ársþing KSÍ, það 68. í röðinni, hefur verið sett en það fer fram í Menningahúsinu Hofi á Akureyri.  Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, setti þingið kl. 11:00 í morgun og hér að neðan má sjá setningarræðu formanns.

Við hittumst nú á knattspyrnuþingi á Akureyri. Þetta er í þriðja sinn sem þingið er haldið hér, fyrst var það 1977 þegar 30 ára voru liðin frá stofnun KSÍ og síðan 1997 þegar árin voru orðin 50. Þetta er aðeins í 10. skipti sem ársþing er haldið utan Reykjavíkur. Á Akureyri er mikið knattspyrnustarf, rekið áfram að miklum krafti af KA og Þór. Hér eru haldin fjölmenn og vinsæl knattspyrnumót sem setja svip sinn á bæjarlífið fyrir utan hefðbundna þátttöku félaganna í mótum á vegum KSÍ. Akureyrarbær styður vel við knattspyrnuíþróttina og uppbygging knattspyrnumannvirkja hefur verið mikil frá aldamótum. Bærinn á hrós skilið sem og auðvitað forysta félaganna.

Staða knattspyrnunnar á landsbyggðinni á undir högg að sækja. Þar hefur byggðaþróun mikið að segja sem og tilflutningur á atvinnustarfsemi. Afreksstarfið er háð stuðningi atvinnulífsins og öll skerðing gerir keppni meðal hinna bestu í Íslandsmóti erfiðari auk þess sem mikið hallar á landsbyggðarfélög þegar kemur að ferðakostnaði. Þessi þróun setur óneitanlega svip sinn á röð liða í deildum Íslandsmótsins í meistaraflokki. Starfsemi yngri aldursflokka hefur einnig orðið fyrir barðinu á þessari þróun. Við vitum vel að keppni í íþróttum innanlands grundvallast ekki á stuðningi ríkisvaldsins en það er hins vegar hlutverk ríkisvaldsins að vinna gegn einangrun og mismunum sem byggir á búsetu þegna þessa lands.

Árið 2013 var afar gott knattspyrnuár. Árangur íslenskra liða í alþjóðlegri keppni var betri en nokkru sinni fyrr. Góður árangur leiðir oft af sér fleiri leiki og sú varð raunin. Landsleikir Íslands hafa aldrei verið fleiri á einu ári eða alls 75 leikir og Evrópuleikir félagsliða voru fleiri en nokkru sinni eða 22. Að auki fóru fram 2 leikir í Evrópukeppni félagslið í futsal. Árangurinn var í heildina þannig, að réttilega er liðið ár sagt hið besta í íslenskri knattspyrnusögu. Góð uppskera byggir á mörgum þáttum en fyrst og fremst á traustum grunni. Þessi grunnur er fyrst og síðast, góð þjálfun og vel skipulagt mótahald. Ytri skilyrði hafa auðvitað sitt að segja og bætt aðstaða á allan hátt hefur aukið gæði þjálfunar og keppni. Vinsældir leiksins og fjármagn skiptir miklu og ekki síður þátttaka sjálfboðaliða sem halda starfinu gangandi á öllum stigum leiksins.

A landslið karla náði sínum besta árangri frá upphafi með því að komast leið í umspil um sæti í lokakeppni HM 2014 í Brasilíu.  Í raun má segja að íslenska liðið hafi verið einum leik frá því að komast í lokakeppnina og þar með orðið langfámennasta þjóðin í sögunni til að ná þeim áfanga.  Lokaspretturinn í riðlakeppninni var ævintýri líkastur og gríðarleg spenna í riðlinum allt til loka.  Frammistaða þessa liðs, sem enn er tiltölulega ungt að árum, í sumum leikjanna var hreint út sagt aðdáunarverð og eftir þessum árangri var tekið um allan heim. Athygli knattspyrnuheimsins hafði aldrei áður verið beint að Íslandi í jafn miklum mæli.  Að Ísland skyldi eiga landslið sem hélt hreinu á móti Króatíu í fyrri leiknum í umspilinu, og kom til Zagreb í seinni leikinn með raunverulegan möguleika á að komast á HM í Brasilíu í farteskinu, var nokkuð sem fæstir höfðu reiknað með. 

Vonbrigðin voru því auðvitað gríðarleg þegar úrslitin lágu fyrir, en engu að síður geta Íslendingar borið höfuðið hátt og stefnan hefur verið sett á úrslitakeppni EM í Frakklandi 2016.  Þar munu í fyrsta skipta 24 þjóðir taka þátt og ljóst að margar þjóðir eygja þar möguleikann á að komast í lokakeppni stórmóts.  Ísland er ein af þeim þjóðum og eins og árangurinn í undankeppni HM 2014 sýndi er sá möguleiki raunhæfur. Dregið verður í riðla í undankeppni EM 2016 sunnudaginn 23. febrúar nk. Ísland er í fimmta styrkleikaflokki af sex sem þýðir að við getum mætt sterkum knattspyrnuþjóðum í riðlakeppninni. Alls verða 9 riðlar – 8 með 6 liðum og 1 með 5 auk þess sem Frakkland leikur sem sjötta þjóðin í þeim riðli – vináttuleiki. Frakkland er sjálfkrafa með sæti í úrslitakeppninni 2016 en hin 23 sætin ákvarðast þannig: 9 sigurvegarar riðlanna í undankeppninni, 9 liðin sem hafna í 2. sæti og liðið sem bestum árangri nær í 3. sæti. Hin 8 liðin í 3. sæti leika tvo umspilsleiki um 4 síðustu sætin.

Ekki má gleyma því að undankeppni EM 2016 markar tímamót í skipulagi landsleikja í Evrópu, nokkuð sem hefur verið stefna forseta UEFA í þeirri viðleitni að hefja þá til vegs og virðingar. Unnendur knattspyrnuleiksins munu verða þessara breytinga áþreifanlega varir næsta haust. Leikirnir í riðlum undankeppninnar munu fara fram á þremur samliggjandi dögum – eða sex samliggjandi dögum þegar leiknar verða tvær umferðir í einu – og leiktímar verða staðlaðir. Fyrirkomulagið verður svipað og í Meistara- og Evrópudeildinni. Þegar leiknar verða tvær umferðir yfir sex samliggjandi daga verða hvíldardagar á milli leikja tiltekins landsliðs aðeins tveir í stað þriggja eins og verið hefur. Þetta er mikil breyting, ekki aðeins skipulagslega heldur einnig í umgjörðinni. Réttindi eru nú í fyrsta sinn seld sameiginlega af UEFA og um leið eru kröfur auknar á framkvæmdaaðila leikjanna, þ. e. knattspyrnusamböndin. Sjónvarpsstöðvar mun svo færa okkar þessa leiki heim í stofu, annars vegar leiki okkar liðs – bæði heima og útileiki - í opinni dagskrá (sem þegar er ljóst að verður hjá RÚV næstu 4 árin) og hins vegar leiki annarra þjóða. Leikjum stóru þjóðanna verður dreift yfir dagana sem um ræðir til að auka markaðsvirði keppninnar.

KSÍ  gerði samkomulag við Lars Lagerbäck og Heimi Hallgrímsson um að halda áfram með A landslið karla næstu tvö árin og munu þeir stjórna liðinu saman. Heimir mun síðan taka við stjórn liðsins tvö árin þar á eftir. Þeir eiga hrós skilið fyrir gott starf eins og leikmennirnir fyrir þeirra þátt. A landsliðið karla var í árslok 2013 valið lið ársins og Gylfi Þór Sigurðsson íþróttamaður ársins.

 Laugardalsvöllur er okkar heimavöllur. Við þurfum að uppfylla auknar kröfur með þátttöku í undankeppni EM 2016. Í því felst að uppfæra þarf lýsinguna á vellinum upp í 1.400 lux, þ. e. auka þarf ljósmagnið verulega en í dag er þessi tala um 1.000 lux. Við þurfum einnig að setja hitakerfi í völlinn, þörfin hefur komið í ljós í  umspilsleikjum A landsliðanna undanfarin ár. Á sama tíma er fjallað um framtíð Laugardalsvallar. Í því sambandi er rétt að geta þess að við höfum náð saman með Frjálsíþróttasambandinu og orðið sammála um að leiðir þessara tveggja íþrótta verði að skilja, þ.e. að byggður verði nýr leikvangur fyrir frjálsar íþróttir og Laugardalsvöllur verði eingöngu knattspyrnuleikvangur. Það er Reykjavíkurborg sem er eigandi Laugardalsvallar og því fyrst og fremst á borði borgarinnar að ákveða framhaldið. Starfshópur vinnur nú að framtíðarskipulagi þessara mála á vegum borgarinnar. Við höfum átt í viðræðum við Reykjavíkurborg um rekstur vallarins og þau atriði sem áður eru nefnd. Þessar viðræður eru í eðlilegum farvegi og ég er bjartsýnn á að ráðist verði í endurbætur á fljóðljósunum fyrir haustið og rekstur vallarins verði tryggður í góðri sátt aðila á milli.

A landslið kvenna náði sínu besta árangri frá upphafi þegar liðið hafnaði í 5. – 8. sæti í úrslitakeppni EM sem fram fór í Svíþjóð í júlí.  Liðið var reynslunni ríkari eftir þátttöku í úrslitakeppni EM 2009 en leikmannahópurinn var að mestu sá sami. Liðið toppaði á réttum tíma og náði í sín fyrstu stig í úrslitakeppni. Jafntefli við silfurlið Noregs og fyrsti sigurinn, sem kom gegn Hollandi, voru frábær úrslit og vitnisburður um ótrúlegan metnað og dugnað auk ómældra hæfileika. Sigurður Ragnar Eyjólfsson ákvað að stíga til hliðar í ágúst eftir 7 ára farsælt starf sem þjálfari liðsins og það sama gerði Guðni Kjartansson aðstoðarþjálfari. Freyr Alexandersson tók við liðinu og framundan er tími þróunar og breytinga en vitanlega er stefnan sett á úrslitakeppni HM sem fram fer í Kanada 2015 og í fyrsta sinn taka þátt 24 þjóðar í úrslitakeppni í stað 16 áður. Evrópa fær 8 sæti í Kanada, sem falla sjö sigurvegurum í riðlum undankeppninnar í skaut auk þess sem þau fjögur lið sem hafna í öðru sæti riðlanna leika um eitt sæti. Tvær landsliðskonur léku sinn síðasta landsleik 2013 eftir langan og glæsilegan feril. Katrín Jónsdóttir sem  lék 133 A-leiki og Edda Garðarsdóttir sem lék 103 A-leiki. Þeim er þakkað fyrir ómetanlegt framlag til landsliðsins.

Góður árangur yngri landsliða KSÍ setti einnig svip sinn á starfsárið. U19 og U17 liðin  komust öll í milliriðla í undankeppni EM og nýtt lið skipað drengjum fæddum 1999 og síðar vann sér inn þátttökurétt á Ólympíuleikum ungmenna, sem fram fara í Kína 2014.  U21 landslið karla lék vel og náði góðum árangri í undankeppni EM 2015; vann 4 leiki af 5 og eygir von á umspilssæti komandi haust. Ungir íslenskir leikmenn vekja sem fyrr athygli fyrir góðan árangur og vel er fylgst með þeim á alþjóðlegum vettvangi. Þessi athygli leiðir til félagaskipta enda eru margir leikmenn yngri landsliða komnir á mála hjá erlendum félagsliðum.

Knattspyrnusamband Evrópu hefur falið KSÍ framkvæmd á úrslitakeppni EM U17 kvenna og fer keppnin fram á Íslandi sumarið 2015 með átta landsliðum. Íslenska liðið verður eitt þeirra. Þá hefur stjórn KSÍ ákveðið að sækja um úrslitakeppni EM U19 karla 2017 á 70 ára afmæli sambandsins.

Mótahald KSÍ var í föstum skorðum en landsdeildum í meistaraflokki karla var fjölgað um eina og leikið í fyrsta sinn í 10 liða 3. deild.  Góður árangur liða í Evrópumótum félagsliða sýndi vel þann vanda sem mótanefnd stendur frammi fyrir við niðurröðun leikja, sér í lagi í júlí og ágúst, þegar aðstæður til knattspyrnu eru með besta móti á Íslandi. Þar takast á sjónarmið um of mikið álag á leikmenn hjá liðum í Evrópukeppni annars vegar og hins vegar leikjafjöldi þeirra liða sem ekki taka þátt í Evrópukeppni.

Breyting var gerð í keppni yngstu iðkenda en keppni í 6. flokki fór fram i 5 manna liðum í stað 7 manna áður.  Það varð til þess að aldrei hafa fleiri lið tekið þátt í mótum KSÍ utanhúss eða alls 996.  Dómara var skylt að skrá atvik á leikskýrslu með tölvu beint í gagnagrunn KSÍ að leik loknum á leikstað í fyrsta sinn á sl. keppnistímabili. Þessi breyting, sem gekk vel, gerði leiksskýrslu KSÍ að mestu leyti rafræna og gaf fjölmiðlum og áhugafólki um knattspyrnu nauðsynlegar upplýsingar með öruggum og skjótum hætti.

KR varð Íslandsmeistari í meistaraflokki karla í 26. sinn og setti um leið stigamet, 52 stig í 22 leikjum. Það sama gerði Stjarnan í meistaraflokki kvenna. Félagið varð Íslandsmeistari og vann alla 18 leiki sína. Tvö Reykjavíkurfélög, Fjölnir og Víkingur R. unnu sér rétt til að leika í efstu deild karla á nýjan leik og á sama hátt gerðu Fylkir og Akranes það í efstu deild kvenna.

Fram varð bikarmeistari í meistaraflokki karla eftir 24 ára bið eftir sigur á Stjörnunni. Það var sárabót fyrir Stjörnuna að ná 3. sæti í deildinni og komast í Evrópukeppni í fyrsta sinn. Breiðablik varð bikarmeistari í meistaraflokki kvenna í 10. sinn eftir sigur á Þór/KA.

HK og KV unnu sér rétt til að leika í 1. deild karla, Fjarðabyggð og Huginn unnu sér rétt til að leika í 2. deild karla og Einherji og Berserkir að leika í 3. deild karla. Ég óska öllum sigurvegurum sl. árs til hamingju með góðan árangur.

Glæsilegur árangur íslenskra félagsliða í Evrópukeppni karla setti svip sinn á sl. starfsár. FH var nærri sæti í umspili meistaradeildarinnar en fór í umspil Evrópudeildarinnar. Breiðablik féll úr leik eftir vítaspyrnukeppni á Laugardalsvelli þegar í húfi var sæti í umspili Evrópudeildarinnar. ÍBV og KR komust í 2. umferð og alls léku því liðin fjögur 20 Evrópuleiki sem er út af fyrir sig met. Evrópumót félagsliða karla eru markaðssett yfir 3 ára tímabil í senn. Þannig markar Íslandsmótið og bikarkeppni KSÍ upphaf að nýju tímabili í Evrópumótum félagsliða, þ.e. fyrir þau félög sem vinna sér rétt til að leika í Evrópumótum 2015. Sjónvarps- og markaðsréttindi eru seld til þriggja ára og jafnan eru meiriháttar breytingar á fyrirkomulagi innleiddar um leið. Nú berast þær fréttir að enn aukist tekjur UEFA af sölu fyrrnefndra réttinda fyrir komandi tímabil sem hefst 2015 sem leiðir væntanlega til aukinna fjármuna til litlu liðanna. Þá hafa verið gerðar veigamiklar breytingar á keppnisfyrirkomulagi, einkum hvað varðar Evrópudeildina. Ef sama lið verður Íslands- og bikarmeistari í sumar fær silfurlið bikarkeppninnar ekki lengur rétt til þátttöku í forkeppni Evrópudeildarinnar, heldur flyst sá réttur til liðs nr. 4 í Íslandsmótinu. Hið sama gerist í öðrum löndum Evrópu. Í aðalkeppni Evrópudeildarinnar leika 48 lið í 12 fjögurra liða riðlum. Í keppninni sem hefst í sumar er leikið um 32 af þessum sætum í forkeppninni. Í keppninni sem hefst 2015 verður aðeins leikið um 22 sæti, þ. e. 26 sæti verða frátekin fyrr stóru liðin. Þetta þýðir augljóslega að forkeppni Evrópudeildarinnar frá 2015 verður þeim mun erfiðari. Til að auka vægi Evrópudeildarinnar mun svo sigurvegari hennar frá 2016 fá rétt til að leika í umspili eða aðalkeppni Meistaradeildarinnar á því keppnistímabili sem á eftir kemur.

Þegar við fjöllum um bikarkeppni KSÍ verðum við að  hafa það hugfast að sigur í henni er og verður stysta leiðin til Evrópu. Í því ljósi verður að meta mikilvægi keppninnar fyrir liðin og samstarfsaðilann. Áður nefnd breyting UEFA ryður úr vegi áhrifum þeim sem silfurlið bikarkeppninnar gat haft á lokaumferðir Íslandsmótsins. Því er úrslitaleikur bikarkeppninnar vel staðsettur í ágúst þegar aðstæður til knattspyrnu fyrir leikmenn og áhorfendur eru með besta móti.

Ekki verður hjá því komist að minnast á miður fallegar hliðar knattspyrnuíþróttarinnar sem eru fordómar og óeðlilega afskipti af úrslitum eða gangi leikja. Þessi málefni eru ofarlega á baugi hjá bæði UEFA og FIFA og við verðum bæði að innleiða reglur og halda vöku okkar. Það er nú einfaldlega þannig að við erum ekki brautryðjendur í knattspyrnu, við lærum af öðrum þjóðum og helst nágrönnum okkar á Norðurlöndum. Þannig berast hingað góðir sem slæmir hlutir. Eitt er víst að við köllum eftir aðkomu stjórnvalda þegar vernda þarf íþróttir frá svindli eða hvers kyns framkomu áhorfenda sem stangast á við landslög. Sú skylda hvílir ávallt á knattspyrnuhreyfingunni að halda leikmönnum okkar vel upplýstum og spyrna við fótum í þessari slæmu þróun.

Knattspyrnuhreyfingin leitar til stjórnvalda í fleiri málum. Við viljum fá viðræður um málefni sem snúa að umgjörð reksturs íþrótta, s. s. frekari undanþágur til handa íþróttahreyfingunni varðandi virðisaukaskatt af styrkjum, heimildir til endurgreiðslu virðisaukaskatts af byggingu íþróttamannavirkja og skilgreiningar á verktöku með hagsmuni reksturs íþrótta að leiðarljósi. Það er öllum ljóst að ríkisvaldið mun ekki leggja fram rekstrarfé til íþrótta sem nokkru nemur en þau geta vissulega bætt umhverfi reksturs íþrótta sem eru og verða mikilvægur þáttur í okkar samfélagi.

Á síðasta ári fjölgaði enn erlendum leikmönnum í Íslandsmótinu og hafa þeir aldrei verið fleiri. Þeir voru 262 samanborið við 227 árið áður. Þessa þróun þarf að skoða en sá fjöldi íslenskra leikmanna, um 100, sem leikur erlendis í uppeldis- eða atvinnutilgangi hefur augljóslega sín áhrif. Rétt er að geta þess að nú hefur stjórn KSÍ komið til móts við kröfur yfirvalda og sett reglur um félagaskipti erlendra leikmanna frá öðrum löndum en innan EES, Grænlandi og Færeyjum og skal tilkynningu um félagaskipti fylgja staðfesting frá Útlendingastofnun og/eða Vinnumálastofnun á dvalar- og atvinnuleyfi leikmannsins á Íslandi.

Viðmiðunarreglur um fjárhagsstöðu tóku gildi 15. nóvember sl. þegar leyfisferlið fyrir 2014 hófst og segja má að þessar reglur gjörbreyti í raun þeim fjárhagslegu kröfum sem gerðar eru til þeirra félaga sem undirgangast leyfiskerfið. Krafa er gerð um jákvæða eiginfjárstöðu. Grunnreglan er sú að félag sem er með eða lendir í neikvæðri eiginfjárstöðu fær tvö ár til að bæta úr því. Leyfisumsækjandi með verulega neikvæða eiginfjárstöðu (meira en 10% af knattspyrnulegum rekstrartekjum) getur fengið tveggja ára aukaaðlögun að forsendunni, en þarf að sýna fram á bætta stöðu eftir tvö ár (lækkun um 40%) til að fá það. Nýtt ákvæði um hámarksskuldabyrði. Heildarskuldir og skuldbindingar mega ekki vera hærri en 50% að meðaltali af knattspyrnulegum rekstrartekjum yfir 3 undangengin ár. Grunnreglan er sú að félag sem fer yfir hámarksskuldabyrði fær tvö ár til að bæta úr því. Leyfisumsækjandi með skuldabyrði sem er meira en 60% í upphafi, getur fengið tveggja ára aukaaðlögun að forsendunni, en þarf a.m.k að halda í horfinu fyrstu tvö árin til að fá það. Aukaaðlöngun skv. þessum ákvæðum gildir til loka leyfisárs 2017.

Ný stúka var vígð á Ísafirði með 540 sætum og stúkan var stækkuð í Ólafsvík og í henni eru nú 500 sæti. Framkvæmdir við stúku eru í gangi á Fylkisvelli, smiðshöggið vantar á stúkuna á Hásteinsvelli og þak vantar á nokkrar stúkur m. a. hér á Akureyri. Við höfum nú beðið eftir þaki á stúku við knattspyrnuvöll á Akureyri í meira en hálfa öld. Það var stór stund og skemmtileg að skipuleggja vináttulandsleik við Eistland hér á Akureyri 16. ágúst 1994. En tímarnir breytast og ekki er raunhæft að leika A eða U21 landsleik á Akureyri miðað við núverandi aðstæður. Það sem verra er það sama á við um Evrópuleiki félagsliða þó að við höfum getað fengið undanþágu sl. ár. Hverjir gera þessar kröfur er oft spurt. Í stuttu máli eru það í raun mótherjar okkar í hvert sinn og stuðningsfólk liðanna. Eins og íslensk lið gera kröfur á erlendum vettvangi í keppni gera mótherjar okkar það hér. Þegar spurt er um hvers vegna þurfum við þak fyrir áhorfendur á knattspyrnuleikjum þarf í raun að svara spurningunni, hvort það rigni á Íslandi?

Framfarir í mannvirkjamálum um gjörvalla Evrópu eru ótrúlegar á sl. áratug og ekkert lát er á. KSÍ óskar áfram eftir skilningi bæjaryfirvalda við uppbyggingu knattspyrnumannvirkja. Knattspyrnuíþróttin er fyrir löngu búin að sanna sig á Íslandi og í ár fer fram 103. Íslandsmótið í knattspyrnu á völlum landsins. Akureyrarbær á hrós skilið fyrir byggingu nýs gervigrasvallar á Akureyri – hann mun bæta verulega aðstöðuna hér. Í þessu sambandi er vert að minnast kal eða svell vandamála sem geisuðu á Norðurlandi á sl. ári og settu mótahaldi skorður. Nú glíma félög á höfuðborgarsvæðinu við þennan vanda. Þetta sýnir vel hve berskjölduð við erum gagnvart náttúruöflunum.

Starfsárið markaði tímamót í fræðslustarfi KSÍ en alls voru skipulagðir 26 fræðsluviðburðir innanlands af ýmsu tagi sem er met, auk þess sem fulltrúar á vegum KSÍ tóku þátt í fjölda námskeiða erlendis. Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri, sem stýrt hefur fræðslustarfinu einkar farsællega sl. 12 ár, lét af störfum og við keflinu tók Arnar Bill Gunnarsson. KSÍ væntir mikils af hans störfum.

Hvernig var dómgæslan 2013 gæti einhver spurt? Við fáum örugglega mjög ólík svör eftir því hvar við berum niður. Knattspyrnuhreyfingin getur þó vonandi verið sammála um að í heildina hafi dómgæslan verið af þeim gæðum sem við væntum af því mikla starfi sem unnið er innan okkar raða. KSÍ þarf að eiga milliríkjadómara sem skila góðu starfi innan- sem utanlands. Kristinn Jakobsson mun í ár dæma sitt síðasta ár í hópi FIFA dómara en hann hefur náð lengra á erlendum vettvangi en nokkur annar íslenskur knattspyrnudómari. Það hefur hann gert af metnaði og miklum dugnaði. Árangur hans er til eftirbreytni fyrir aðra knattspyrnudómara.

Mikill vöxtur einkenndi starfsemi KSÍ á liðnu starfsári og má segja að það sé sama hvert litið er í því sambandi. Þessi vöxtur skapaðist að miklu leyti af góðum árangri á leikvellinum og aldrei fyrr hefur KSÍ staðið fyrir jafnmörgum landsleikjum á einu ári. Þetta setti sitt mark á fjármál KSÍ og kostnaður fór fram úr áætlun en engu að síður var rekstrarhagnaður af hefðbundinni starfsemi upp á rúmar 44  milljónir króna.

Rekstrartekjur KSÍ á árinu 2013 námu 972 milljónum króna samanborið við 842 milljónir króna á árinu 2012. Hækkun rekstrartekna skýrist af auknu framlagi UEFA og uppgjöri á sjónvarpssamningi við Sportfive.

Rekstrarkostnaður KSÍ var 928 milljónir króna samanborið við 794 milljónir króna á árinu 2012. Áætlun gerði ráð fyrir 796 milljón króna rekstrarkostnaði svo að kostnaðurinn var um 132 milljónum króna meiri en áætlað hafði verið. Þessi munur skýrist að stærstum hluta af auknum kostnaði við landslið, rúmar 80 milljónir króna, en verkefni urðu fleiri en áætlað hafði verið.  Þá fór móta- og fræðslukostnaður 30 milljónir króna fram úr áætlun sem skýrist af aukinni starfsemi og auknum ferðakostnaði dómara. Þá var kostnaður við rekstur Laugardalsvallar hátt í 20 milljónir króna meiri en áætlun gerði ráð fyrir. Kom þar til mikill kostnaður við umspilsleik gegn Króatíu.

Rekstrarhagnaður ársins nam tæpum 44 milljón króna, en áætlanir gerðu ráð fyrir rúmlega 59 milljóna króna hagnaði. Að teknu tilliti til fjármagnsliða var hagnaður af starfsemi KSÍ um 57 milljónir króna samanborið við 72 milljónir króna árið áður.

Styrkir og framlög til aðildarfélaga á árinu námu um 87 milljónum króna vegna barna- og unglingastarfs, leyfiskerfis og fleira samanborið við 72 milljónir króna árið áður. Samþykkt áætlun gerði ráð fyrir styrkjum að fjárhæð 78 milljónir króna. Að teknu tilliti til styrkja og framlaga til aðildarfélaga var tap ársins 28 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir jafnvægi.

Fjárhags- og eignastaða KSÍ er traust við áramót og lausafjárstaða góð. Handbært fé lækkar á milli ára og var nú í árslok um 299 milljónir króna. Eignir námu 762 milljónum króna. Eigið fé KSÍ var ríflega 200 milljónir króna í árslok.

Rekstrartekjur KSÍ voru 972 milljónir króna eins og áður sagði og að auki runnu um 432 milljónir króna til aðildarfélaga KSÍ sem ekki voru tekjufærðar hjá knattspyrnusambandinu heldur viðkomandi félögum en það voru framlög frá UEFA og tekjur af sjónvarps- og markaðsrétti. Í heild voru tekjurnar því rúmar 1.400 milljónir króna og var tæpur einn þriðji þeirra tekjufærður hjá aðildarfélögum sambandsins. Þá er ótalinn mannvirkjasjóður KSÍ en hann var fjármagnaður að fullu með framlagi frá UEFA og fór til framkvæmda aðildarfélaga. Alls voru greiddar tæplega 53 milljónir króna úr mannvirkjasjóð KSÍ árið 2013.

Eins og fram kemur í ársreikningi mun KSÍ fá 9,5 milljónir Evra frá UEFA, sem skiptast á fjögur ár, fyrir sjónvarps- og markaðsréttindi vegna þátttöku í undankeppni EM 2016 og HM 2018. Þetta eru tekjur KSÍ af sameiginlegri sölu þessara réttinda allra aðildarsambanda UEFA og það er í fyrst sinn sem svo er staðið að málum. Eins og áður hefur verið greint frá varð KSÍ að leysa sig undan samningi við Sportfive sem gerður hafði verið út árið 2015 vegna ofangreindra réttinda. Sportfive gerði hins vegar þá kröfu á móti að fyrirtækið yrði aðeins umboðsaðili vegna sölu réttinda tengdum efstu deild og bikarkeppni árin 2014 og 2015, ef fyrirtækið gæfi eftir rétt sinn til að selja réttindi vegna heimaleikja A landsliðs karla í undankeppni EM 2016. Þetta leiddi til þess að KSÍ tryggði aðildarfélögum sínum sem í hlut eiga óbreyttar tekjur árin 2014 og 2015 af þessum réttindum þar sem fyrirframgreiðsla upp á 120 milljónir króna fyrir þau var úr sögunni. Sportfive selur réttindin eins og fyrr en tekjur verða hins vegar aðeins þær sem markaðurinn býður. KSÍ fyllir í skarðið þannig að heildartekjur félaganna sem í  hlut eiga verða um 120 milljónir króna eins og verið hefur sl. 5 ár. Í fjárhagsáætlun KSÍ fyrir árið 2014 er gert ráð fyrir styrkjum og framlögum til aðildarfélaga að upphæð 150 milljónir króna. Þessir fjármunir mun fara í barna- og unglingastyrk til félaga (sömu upphæðir) sem ekki eru í efstu deild karla, styrk vegna leyfiskerfis (hækkun í 1.100 þús. Í efstu deild og 800 þús. Í 1. deild) og það sem upp á vantar til þess að uppfylla skuldbindingu KSÍ vegna ofangreinda breytinga á samningi við Sportfive.

Þau skilyrði og stefna sem stjórn KSÍ hefur undanfarin ár markað til að auðvelda aðildarfélögum sínum starfið hefur skilað góðum árangri. Auðvitað byggja tekjur KSÍ að stærstum hluta á vinsældum knattspyrnuleiksins um heim allan en stór hluti þeirra er notaður til að létta aðildarfélögum þátttöku í mótum á vegum KSÍ. Þau skref voru stigin með því að fella niður mótagjöld, 5% skatt af miðaverði, flutningi á launum dómara til KSÍ (voru 43 milljónir króna 2013) og síðan flutningi á ferða- og upphaldskostnaði dómara til KSÍ (var 58 milljónir króna 2013). Þetta tryggir að öll aðildarfélög njóti og í þeim anda ákvað stjórn KSÍ að greiða barna- og unglingastyrk til þeirra félaga sem væru utan efstu deildar karla sem mótvægi við sambærilegt framlag UEFA til félaga í efstu deild karla. Þetta er jafnaðarmennska og sanngirni. Í þessum anda hef ég staðið mína vakt innan KSÍ og mun gera svo áfram eins og mögulegt er. Ég gef kost á mér að ári til að leiða áfram KSÍ ef ég fæ stuðning ykkar til þess – það er mér í blóð borið að berjast fyrir hagsmunum íslenskrar knattspyrnu. Af fjárhagsáætlun KSÍ fyrir 2014 má sjá að 3 af hverjum 4 krónum tekna KSÍ munu koma frá UEFA. Tengsl okkar við UEFA hafa verið mikilvæg og verða enn mikilvægari þegar fram líða stundir. Ég hef í þessu sambandi nefnt að hugsanlega muni ég gefa kost á mér í stjórn UEFA 2015, auðvitað eingöngu sem formaður KSÍ, en það veltur á ýmsu í þróun mála innan UEFA og FIFA. Hvað sem því líður verður forgangur minn ávallt KSÍ en það er og verður okkur mikilvægt að eiga sterk ítök í UEFA.

Það var í mörg horn að líta á liðnu starfsári og árangurinn á vellinum var góður. Besta ár í sögu knattspyrnunnar á Íslandi er réttilega sagt. Minningar um frábærar stundir á vellinum lifa. Krafturinn og dugnaðurinn í forystufólki íslenskra knattspyrnufélaga er einstakur. Þig eigið hrós skilið fyrir ykkar miklu og óeigingjörnu störf.

Stjórn KSÍ þakkar ykkur forystusveit íslenskrar knattspyrnu fyrir frábær störf á starfsárinu og fyrir gott samstarf. Það er fyrir ykkar miklu störf sem knattspyrnuhreyfingin á Íslandi stendur eins sterk og raun ber vitni. Við óskum ykkur gæfu á komandi keppnistímabili.

Ársþing KSÍ er vettvangur til umræðu og breytinga. Við hittumst hér til að ræða saman formlega, en ekki síður til þess að bera saman bækur okkar með óformlegum hætti. Staða íslenskrar knattspyrnu er sterk þegar ég segi 68. ársþing Knattspyrnusambands Íslands sett.