• fim. 16. jan. 2014
  • Leyfiskerfi

23 af 24 félögum hafa skilað leyfisgögnum

KR---Fram-PEPSI-KK-2013

Miðvikudaginn 15. janúar var skilafrestur leyfisgagna, annarra en fjárhagslegra.  Alls skiluðu 23 af félögunum 24 sem undirgangast leyfiskerfið sínum gögnum innan tímamarka, þ.e. fylgigögnum með umsókn um þátttökuleyfi fyrir keppnistímabilið 2014, en eitt félag fékk framlengingu á skilafresti.

Það er af sem áður var að félögin þurfi að afhenda möppur með öllum gögnum á pappír, því nú skila flest félögin sínum gögnum með rafrænum hætti, sem flýtir verulega fyrir allri úrvinnslu og einfaldar skipulag og vinnu til muna, bæði fyrir leyfisstjórn og félögin sjálf.
Þau gögn sem félögin þurfa að standa skil á í janúar snúa m.a. að því að sýna fram á að uppeldi ungra leikmanna sé með skipulögðum hætti, að læknisskoðun leikmanna hafi farið fram þar sem við á, að tryggð séu afnot af keppnis- og æfingaaðstöðu sem uppfyllir mannvirkjakröfur, að þjálfarar og annað lykilstarfsfólk hafi tilskilda menntun og/eða reynslu og að lagaleg skilyrði séu uppfyllt.
Leyfisstjórn fer nú yfir gögnin, gerir arhugasemdir þar sem við á, og vinnur í framhaldinu með viðkomandi félögum að úrbótum.
Í febrúar skila félögin svo fjárhagslegum gögnum, þ.m.t. ársreikningum og staðfestingum á engum vanskilum við önnur félög vegna félagaskipta leikmanna og við leikmenn og þjálfara vegna launa og annarra tengdra greiðslna.