• þri. 07. jan. 2014
  • Dómaramál

Rúna Kristín: „Það er hægt að vinna sig hratt upp í dómgæslunni”

Rúna Kristín að störfum
IMG_1060

Rúna Kristín Stefánsdóttir er ungur og efnilegur dómari. Hún hefur dæmt í efstu deildum hér heima, er á þriðja ári sem FIFA-dómari og hún hefur unnið sig hratt upp metorðastigann. Rúna sótti nýverið CORE-dómaranámskeið á vegum UEFA þar sem dómarar víðsvegar að úr Evrópu komu saman til að ræða mál sem snúa að dómgæslu.

Rúna Kristín StefánsdóttirDómgæsla er í stöðugri endurskoðun og því mikilvægt fyrir dómara að hittast reglulega til að fara yfir það sem helst er á döfinni hverju sinni. Rúna var ánægð með CORE-námskeiðið sem fram fór fyrir áramót en hún segir dómgæslu ekki síður henta konum en körlum. Við settum okkur í samband við Rúnu og fengum hana til að ræða dómaramálin og hvernig það er að vera kvendómari á Íslandi.

Hvað hefurðu verið lengi í dómgæslu?

„Ég tók unglingadómarapróf vorið 2004 og héraðsdómararéttindi vorið 2009. Ég fór ekki að dæma fyrr en eftir að ég tók héraðsdómararéttindin. Ég er að byrja mitt sjötta ár sem aðstoðardómari og mitt þriðja ár á FIFA listanum.”

Af hverju byrjaðir þú að dæma?

„Eftir að ég tók héraðsdómararéttindin var hringt í mig frá KSÍ og ég spurð hvort ég vildi ekki prófa að taka leik í 1. deild kvenna. Ég ætlaði aldrei að fara að dæma heldur stefndi ég á þjálfun. Ég tók 11 leiki þetta sumar. Það kom mér á óvart hvað mér fannst þetta gaman. Ég hafði því samband við KSÍ vorið 2010 og óskaði eftir að fá leiki um sumarið. Ég var hækkuð upp í Landsdómarahópinn eftir sumarið og þá var ekki aftur snúið.“

Hvernig finnst þér að stunda dómgæslu á Íslandi?

„Mér finnst mjög gaman að dæma. Mér finnst mjög gaman að fá leiki úti á landi og fá að ferðast hér heima þó það sé ekki nema dagsferð í flestum tilfellum.”

Hefurðu einhvern samanburð milli Íslands og annarra landa?

„Ég get ekki sagt það. Ég hef aðeins tekið einn leik í annarri deild og ég get ekki metið muninn út frá þeim leik. Síðan hef ég farið á landsliðsæfingamót og undankeppnir yngri landsliða. Svo ég tel mig ekki vera dómbæra á hvort munur sé á milli íslensku deildarinnar og annarra deilda á Norðurlöndum.”

Ertu að dæma jafnt hjá konum og körlum?

„Síðasta sumar tók ég fleiri leiki hjá körlum en konum og sumarið þar áður dæmdi ég nokkuð jafnt hjá báðum kynjum. Ég er mjög sátt hvernig þróunin hefur verið hjá mér. Ég hef verið að fá góða leiki og krefjandi.“

Sérðu fyrir þér að þú komir til með að dæma erlendis?

„Ég hef verið á FIFA listanum sem aðstoðardómari síðan 2012. Síðan ég komst innÚrslitaleikur Valitors bikars kvenna Valur - KR á listann hef ég farið á þrjár undankeppnir hjá U-17 og U-19 landsliðum erlendis, verið boðin á landsliðsæfingamót U-23 á La Manga og mun fara þangað í annað sinn núna í febrúar.  Einnig hef ég farið til Noregs í dómaraskipti þar sem ég var aðstoðardómari í efstu deild kvenna. Ég vona að ég fái fleiri tækifæri til að fara erlendis að dæma í framtíðinni. Hingað til hef ég verið send til landa sem ég hefði að öllum líkindum ekki farið til á eigin vegum. Ég hef mikla gleði og ánægju af því að ferðast og finnst ekki amalegt að fá að ferðast um heiminn og dæma.”

Hvað fannst þér standa upp úr á CORE-ráðstefnunni?

Þjálfarar Rúnu á Core„Það sem mér fannst standa uppúr frá CORE voru fyrirlestrarnir sem við fengum um æfingar, lífsstíl, stjórnun og fleira. Einnig fannst mér æfingarnar standa uppúr, á þeim lærði ég margar nýjar æfingar sem ég mun geta nýtt mér í framtíðinni.”

Telurðu þig hafa lært mikið af ráðstefnunni og hvað þá helst?

„Ég tel mig hafa lært margt nýtt og gagnlegt sem mun nýtast mér til að ná lengra sem dómari. Ég lærði nýja hluti um mig sjálfa, nýjar æfingar og aðferðir sem ég mun geta notað á æfingum til að undirbúa mig enn betur fyrir leiki sem og atriði sem ég get nýtt mér í leikjum.“

Hvaða skilaboð ertu með fyrir stelpur/konur sem hafa áhuga á að fara í dómgæslu en vita ekki hvert þær eiga að leita eða hvar þær eiga að byrja?

„Inná heimasíðu KSÍ (www.ksi.is)  koma reglulega tilkynningar um unglingadómaranámskeið og héraðsdómaranámskeið. Einnig er hægt að hringja á skrifstofu KSÍ (510-2900) og leita eftir upplýsingum um námskeið. Fyrsta skrefið er unglingadómarapróf og í kjölfar þess héraðsdómarapróf ef áhuginn er fyrir hendi. Einnig er mikilvægt að hafa samband við sitt félag og óska eftir að fá leiki í yngri flokkum.

Ef áhugi og metnaður er fyrir hendi er hægt að vinna sig hratt upp sem kona hér heima. Okkur vantar fleiri konur í dómgæslu og mikill áhugi er hjá KSÍ að fjölga konum í dómgæslu. Frá því ég byrjaði að dæma vorið 2009 hef ég fundið fyrir miklum stuðningi frá KSÍ sem og hinum Landsdómurunum. Ég get með vissu sagt að hinar tvær stelpurnar í hópnum séu sammála mér. Okkur er tekið mjög vel og væntingar gerðar til okkar.Rúna Kristín að störfum

Mín von er sú að fleiri konur fari að dæma og að á næstu árum munum við eignast fleiri alþjóðlega dómara. Svo við getum eignast alþjóðlegt tríó áður en langt um líður. Tækifæri eru mörg fyrir konur og hægt er að ná langt ef vilji, metnaður og áhugi er fyrir hendi. Það er staðreynd að ef dómarar leggja hart að sér og hafa metnað þá er hægt að ná langt á stuttum tíma.”