• fim. 21. nóv. 2013
  • Leyfiskerfi

Félögum í öðrum deildum velkomið að undirgangast leyfiskerfið

Haust í Laugardalnum
Haust-a-Laugardalsvelli

Leyfisferlið fyrir keppnistímabilið 2014 hófst í liðinni viku. Félög sem leika í efstu tveimur deildum karla undirgangast leyfiskerfi KSÍ og þurfa að uppfylla þær kröfur sem settar eru fram í leyfisreglugerð til að hljóta þátttökuleyfi í viðkomandi deild. 

Leyfiskerfið sem slíkt nær ekki til annarra deilda.  Engu að síður er þeim félögum sem leika í öðrum deildum velkomið að undirgangast leyfiskerfið, óski þau þess.  Viðkomandi félag fer þá í gegnum leyfisferlið að öllu leyti, nema að leyfisráð fjallar ekki um leyfisumsókn félagsins og séu ákvæði ekki uppfyllt kemur að sjálfsögðu ekki til neinna viðurlaga.  Þessi möguleiki stendur félögunum einfaldlega til boða, ef þau vilja kynnast leyfiskerfinu og öllu því vinnulagi og þeim kröfum sem þar er að finna.

Þau félög sem hafa áhuga á að undirgangast leyfiskerfið með þeim hætti sem fram kemur hér að ofan eru hvött til að senda erindi á leyfisstjórn. 

Tvö félög hafa nú þegar skilað leyfisgögnum, en það eru Pepsi-deildarlið Keflavíkur, sem hefur jafnan verið fyrst félaga í efstu deild að skila á síðustu árum, og KV sem undirgengst nú leyfiskerfið í fyrsta sinn.  Þau gögn sem skila skal eigi síðar en 15. janúar eru þau sem snúa að öðrum þáttum en fjárhagslegum.