Dregið í milliriðla hjá U19 kvenna á miðvikudaginn
Dregið verður í milliriðla EM hjá U19 kvenna, miðvikudaginn 20. nóvember, og verður dregið í höfuðstöðvum UEFA. Sama dag verður dregið í undankeppni EM 2015 hjá sama aldursflokki en Ísland verður í pottinum í bæði skiptin.
Þjóðunum 24, í milliriðlum hjá U19 kvenna, er skipt í fjóra styrkleikaflokka og er Ísland í þriðja styrkleikaflokki. Úrslitakeppnin fer svo fram í Noregi á næsta ári.
Einnig verður dregið hjá U17 kvenna en Ísland komst ekki í milliriðla að þessu sinni og verður svo ekki í pottinum þegar dregið verður í undankeppni EM 2015 þar sem Ísland heldur úrslitakeppnina það ár.
Klara Bjartmarz verður fulltrúi Íslands við dráttinn en hægt verður að fylgjast með honum í beinni útsendingu á heimasíðu UEFA.