• fös. 15. nóv. 2013
  • Leyfiskerfi

Leyfisferlið fyrir 2014 hafið

Ldv_2010_Atburdir-215
Ldv_2010_Atburdir-215

Samkvæmt leyfisreglugerð KSÍ hefur þeim félögum sem hyggjast sækja um þátttökuleyfi í Pepsi-deild og 1. deild karla 2014 verið sendar nauðsynlegar upplýsingar, áður en vinna við leyfisumsókn hefst.

Leyfisreglugerðin

Í leyfisreglugerðinni er að finna allar nauðsynlegar upplýsingar um allar forsendur sem þarf að uppfylla, félögin eru hvött til að kynna sér reglugerðina vel.

Leyfisfulltrúi

Hvert félag tilnefnir einn leyfisfulltrúa.  Leyfisfulltrúi félagsins er sá aðili sem leyfisstjóri KSÍ hefur að mestu samskipti við vegna leyfiskerfisins og er sá aðili sem allar upplýsingar eru sendar á.  Leyfisfulltrúi félagsins kemur skilaboðunum síðan áfram innan síns félags.

Trúnaður

KSÍ er bundið trúnaði gagnvart leyfisumsækjendum og er ekki heimilt að gefa óviðkomandi aðilum upp neinar upplýsingar úr leyfisgögnum leyfisumsækjenda, skv. trúnaðaryfirlýsingu þar um.  Allir aðilar sem koma að leyfiskerfinu fyrir hönd KSÍ hafa undirritað slíka trúnaðaryfirlýsingu.

Lykildagsetningar

  • Skil á gögnum, öðrum en fjárhagslegum, eigi síðar en 15. janúar.
  • Fjárhagslegum gögnum skilað eigi síðar en 20. febrúar.  Ársreikningur verður því að vera staðfestur af aðalfundi í síðasta lagi 20. febrúar.

Fjárhagsleg leyfisgögn – FLG

Félög í Pepsi-deild þurfa fulla áritun endurskoðanda á ársreikning sinn.  Félög í 1. deild þurfa könnunaráritun endurskoðanda á ársreikning sinn.  Öll félög þurfa að skila staðfestingum vegna engra vanskila við leikmenn og þjálfara, sem og staðfestingar vegna engra vanskila vegna félagaskipta leikmanna.

Leyfisvefurinn á ksi.is

Á vef KSÍ er sérstakur leyfisvefur þar sem finna má allar helstu upplýsingar, eyðublöð og gátlista, reglugerðina sjálfa, o.s.frv.

Aðstoð á skrifstofu KSÍ

Leyfisstjóri er til taks á skrifstofu KSÍ ef spurningar vakna.  Hlutverk leyfisstjóra í þessu ferli er að halda utan um kerfið og aðstoða félögin við að útbúa leyfisumsókn.  Ef leyfisstjóri kemur auga á eitthvað sem hann telur að gæti komið í veg fyrir veitingu þátttökuleyfis mun hann vinna með viðkomandi félagi að úrlausn málsins.

Skjöl á leyfisvefnum

Öll nauðsynleg skjöl og sniðmát er að finna undir Tækjakassi hér á síðunni.  Heiti skjalanna eru hluti af skjalastýringu leyfiskerfisins og á sumum stöðum í gátlista yfir allar forsendur má sjá tilvísanir í ákveðin skjöl.