• þri. 12. nóv. 2013
  • Pistlar

Tólfan

Geir Þorsteinsson
Geir-Thorsteinsson-April-2011-minni

Mikilvægi öflugra og líflegra stuðningsmanna verður seint metið til fulls þegar kemur að knattspyrnuleikjum, og ekki síst þegar rætt er um landsleiki Íslands á Laugardalsvelli.  Tólfan er aðal stuðningssveit íslenska landsliðsins og hefur verið það um nokkurra ára skeið.  Framlag Tólfunnar til þess árangurs sem A landslið karla hefur náð í undankeppninni fyrir HM 2014 er af ýmsum toga og að mörgu leyti ómetanlegt. 

Fyrst ber að nefna þá stemmningu sem er farin að myndast á landsleikjunum, sem er að lang mestu leyti Tólfunni að þakka, enda er sú sveit gríðarleg öflug í sínum stuðningi – Tólfumenn syngja, hrópa og kalla látlaust allan leikinn úr miðri Austurstúkunni, sem nú er orðið þeirra „heimasvæði“.  Betri stemmning í stúkunni skilar sér til annarra vallargesta, sem hrífast með og taka þátt.  Jákvæð upplifun af viðburðinum magnast og fólk sem upplifir slíka stemmningu fyllist vellíðan og vill koma aftur og aftur til að sjá og upplifa landsleiki og styðja sitt lið.  Tólfan á sinn þátt í því að Laugardalsvöllur hefur fyllst af fólki og stúkan verið á hæsta styrk á síðustu leikjum.

Stuðningur úr stúkunni skilar sér til leikmanna.  Þetta er engin mýta.  Það er ekki að ástæðulausu sem leikmenn og aðrir aðstandendur knattspyrnuliða kalla eftir stuðningi fyrir leiki og þakka fyrir hann eftir leiki.  Þessi stuðningur skiptir miklu máli, hann eykur kraft og þor leikmanna og keyrir þá áfram í baráttunni fyrir liðið.  Tólfan á sinn þátt í þeim árangri sem náðst hefur á vellinum.  Orkan sem skilaði sér til leikmanna á síðustu heimaleikjum og ekki síst í síðasta leik riðlakeppninnar, á Ullevål í Osló, þar sem Tólfan mætti í öllu sínu veldi.  Fögnuðurinn eftir leikinn, þar sem leikmenn og aðstandendur liðsins og stuðningsmenn fögnuðu saman, er stund sem mun aldrei gleymast.

Tólfan er ekki með formlega tengingu við KSÍ og meðlimir Tólfunnar eru ekki skráðir félagar í stuðningsmannaklúbbi á vegum KSÍ.  Tólfan er sjálfstæð eining í knattspyrnufjölskyldunni á Íslandi.  Þetta form á stuðningsmannasveit landsliðs og/eða félagsliðs er mjög algengt í Evrópu.  KSÍ gerir þó sitt til að styðja við Tólfuna með ýmsum hætti og hefur samstarfið þar á milli verið með miklum ágætum.  Stuðningsmenn landsliða geta reyndar leitað til KSÍ í gegnum sérstakan tengilið (http://www.ksi.is/landslid/tengilidur-vid-studningsmenn/), sem skipaður var á síðasta ári.  Tengiliðurinn er samskiptalína Tólfunnar og annarra stuðningsmanna við KSÍ.

Island-tolfanTólfan og sá hópur sem hana skipar hefur stækkað jafnt og þétt eftir því sem hefur liðið á þessa undankeppni.  Nokkur reynsla er komin á starfið og eiga forsvarsmenn þessarar öflugu sveitar mikinn heiður skilinn fyrir gott starf.  Nú er svo komið að liðsmenn hafa tekið þá ákvörðun að stofna Tólfuna formlega sem skráð félagasamtök og verður það að teljast jákvætt skref í þá átt að festa Tólfuna í sessi og enn frekar í hugum og hjörtum íslensks knattspyrnuáhugafólks.  Með þessu skrefi er Tólfunni gert kleift að setja starfið í fastari skorður, halda skrá yfir félagsmenn og marka stefnu til framtíðar.  Þessu skrefi fagnar KSÍ og óskar Tólfunni og meðlimum hennar innilega til hamingju.

Við erum öll í Tólfunni ... 

Geir Þorsteinsson

Formaður KSÍ