A karla - Hópurinn fyrir umspilsleikina gegn Króatíu
Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari, tilkynnti í dag á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ um þá 24 leikmenn sem verða í hópnum fyrir umspilsleikina gegn Króatíu. Leikið verður hér á Laugardalsvelli, föstudaginn 15. nóvember og ytra þriðjudaginn 19. nóvember. Sú þjóð sem hefur betur úr þessum viðureignum samanlagt tryggir sér sæti í úrslitakeppni HM í Brasilíu 2014.
Birkir Már Sævarsson verður í leikbanni í fyrri leiknum en verður tiltækur í leiknum í Króatíu. Hópurinn er skipaður sömu leikmönnum og gegn Noregi og Kýpur að því undanskildu að Sölvi Geir Ottesen bætist við hópinn.
Ísland og Króatía hafa mæst tvisvar sinnum áður og fóru báðir þeir leikir fram árið 2005. Króatar höfðu betur í báðum þeim leikjum, 4 - 0 ytra og 3 - 1 á Laugardalsvelli.