• mið. 30. okt. 2013
  • Landslið

Danka og Vesna - "Okkar lið hefur mun meira sjálfstraust en áður

Danka-Serbia-2013

Tveir leikmenn úr serbneska landsliðshópnum eru kunnari íslenskum knattspyrnuáhugamönnum heldur en aðrir en þetta eru þær Danka Podovac og Vesna Smiljkovic.  Danka hefur leikið hér á Íslandi síðan 2006, með Keflavík, Fylki, Þór, ÍBV og nú síðast Stjörnunni.  Vesna hóf leikmannsferilinn á íslandi árið 2005 með Keflavík, lék svo með Þór og síðast með ÍBV.

Heimasíðan hitti leikmennina á hóteli liðanna í Belgrad og spurði þær fyrst hvort það væri öðruvísi fyrir þær að leika gegn Íslandi en öðrum þjóðum?:

„Já, við þekkjum mjög marga leikmenn íslenska liðsins eftir að hafa leikið á Íslandi í 7 – 8 ár.  Við sáum alla leiki liðsins þegar það lék á síðasta ári í Svíþjóð og stóð sig mjög vel.  Við höfum leikið nokkrum sinnum áður gegn Íslandi, í fjögur skipti, og höfum alltaf tapað svo sagan er þeirra megin.“

Í síðasta leik ykkar í undankeppninni náðuð þið mjög góðum úrslitum með því að gera 1 – 1 jafntefli gegn Dönum.

„Það voru mjög góð úrslit.  Við fengum skell gegn Sviss í fyrsta leiknum, 9 – 0, sem var gríðarlegt áfall.  Við ákváðum að skilja þann leik eftir, gleyma honum sem fyrst og einbeita okkur að leiknum gegn Danmörku.  Það gekk eftir og við lékum mjög vel í þeim leik, hefðum þess vegna geta unnið leikinn því við fengum dauðafæri undir lok leiksins en jafntefli voru mjög góð úrslit fyrir okkur.  Danir eru á meðal stærstu þjóðanna í kvennaboltanum og þess vegna úrslitin mjög ánægjuleg.“

Voru gerðar miklar breytingar á liðinu á milli þessara leikja?:

„Í raun og veru ekki það miklar, gerðum tvær breytingar á vörninni þar sem m.a. Vesna fór í bakvörðinn  en leikur venjulega úti á kanti.  Helstu breytingarnar voru hugarfarslegar og það skilaði góðum árangri.“

Að leiknum að morgun, nú hljóta úrslitin gegn Dönum að fylla ykkur af sjálftrausti fyrir þennan leik?:

„Ekki spurning, okkar lið hefur mun meira sjálftraust en áður en við búumst við hörkuleik.  Við mætum liði sem hefur spilað saman lengi.  Liðið er skipað mjög góðum leikmönnum sem búa yfir mikilli reynslu svo við eigum von á mjög erfiðum leik en við munum gera okkar besta.“

Hefur þjálfari liðsins leitað til ykkar fyrir þennan leik þar sem þið leikið á Íslandi?:

„Já, hún hefur rætt margsinnis við okkur um liðið og einstaka leikmenn enda þekkjum við nokkuð vel til þeirra og höfum leikið með nokkrum þeirra.  En einnig höfum við horft á myndbönd af liðinu, bæði úti í Svíþjóð í úrslitakeppni EM og af leiknum gegn Sviss.“

Hvað með ykkur sjálfar, munið þið leika á Íslandi á næsta ári?:

„Já, erum báðar með samning við okkar lið, Stjörnuna og ÍBV, og munum leika á Íslandi á næsta ári eins og síðustu ár.“

Leikurinn við Serba í undankeppni HM fer fram í Belgrad á morgun, fimmtudaginn 31. október og hefst kl. 13:00 að íslenskum tíma.  Fylgst verður með leiknum á Facebook síðu KSÍ.  Þá er einnig minnt af fleiri viðtöl á Youtube síðu KSÍ.