• mán. 28. okt. 2013
  • Landslið

A kvenna - Hópurinn kominn til Belgrad

Ferdalag

Íslenska kvennalandsliðið er komið til Belgrad en framundan er leikur í undankeppni HM á fimmtudaginn gegn Serbum.  Leikurinn fer fram á FK Obilic Stadium og hefst kl. 13:00 að íslenskum tíma.  Serbar náðu góðum úrslitum í síðasta leik þegar liðið gerði jafntefli gegn Dönum, 1 - 1, og því ljóst að um hörkuleik verður að ræða á fimmtudaginn.

Það er alltaf töluvert púsluspil að koma einu landsliði á áfangastað en ferðalagið gekk vel í dag og fer vel um mannskapinn á þessu íþróttahóteli þar sem íslenska liðið gistir.  Reyndar gistir serbneska liðið þar líka en æfingavellirnir eru beint fyrir utan hótelið og því staðsetningin hentug.  En þjálfararnir, Freyr Alexandersson og Ásmundur Haraldsson, fóru fyrstir utan en þeir sáu leik Serba og Dana á laugardaginn.  Snemma í morgun héldu svo þeir leikmenn sem leika hér á Íslandi og aðrir starfsmenn, ásamt Katrínu Ómarsdóttur og Hallberu Guðnýju Gísladóttur, frá höfuðstöðvum KSÍ.  Í Leifsstöð hitti hópurinn fyrir Dagnýju Brynarsdóttur sem var þá nýkomin þangað eftir flug frá Bandaríkjunum.  Þessi hópur flaug svo til Frankfurt þar sem þeir leikmennn sem leika í Noregi voru mættir.  Þaðan var svo flogið til Belgrad en þangað höfðu, fyrr í dag, þeir leikmenn sem leika í Svíþjóð flogið og voru mættir á hótelið ásamt þjálfurunum tveimur.

Á morgun eru svo fyrirhugaðar tvær æfingar ásamt fundahöldum en aðstæður virðast prýðilegar en nokkuð heitt hefur verið í Belgrad síðustu daga miðað við árstíma eða rúmlega 20 stiga hiti.

Hægt er að sjá myndir af ferðalaginu á Facebooksíðu KSÍ en þar birtast einnig fleiri fréttir af hópnum næstu daga.