• mán. 21. okt. 2013
  • Landslið

U15 karla - Sæti á Ólympíuleikum ungmenna tryggt

2000px-Nanjing_Youth_Olympics_2014_svg
2000px-Nanjing_Youth_Olympics_2014_svg

Strákarnir í U15 lögðu Moldóva í dag í úrslitaleik um sæti á Ólympíuleikum ungmenna en þeir fara fram í Nanjing í Kína á næsta ári.  Lokatölur urðu 3 - 1 fyrir Ísland sem leiddu í leikhléi, 2 - 0.  Á laugardaginn lögðu Íslendingar Finna, 2 - 0.

Sigur Íslands var öruggur og sanngjarn og það var strax á 12. mínútu sem að Kristófer Ingi Kristinsson kom strákunum yfir.  Hilmar Andrew McShane bætti svo við öðru marki á 23. mínútu en þannig stóðu leikar þegar flautað var til leikhlés.  Það liðu svo aðeins tvær mínútur af síðari hálfleik áður en þriðja markið hafði litið dagsins ljós.  Þar var á ferðinni Áki Sölvason en Moldóvar minnkuðu muninn á 57. mínútu og þar við sat, öruggur íslenskur sigur og sæti á Ólympíuleikum ungmenna í höfn.

Þetta er frábær árangur hjá þessu unga liði en það er skipað leikmönnum sem fæddir eru 1999.  Ljóst er að framundan er mikið ævintýri sem Ólympíuleika ungmenna bera í för með sér og verður spennandi að fylgjast með þeim á næsta ári.

U15 karla eftir að hafa tryggt sér sæti í Nanjing