• mán. 21. okt. 2013
  • Landslið

Aron Einar: „Ætlum okkur lengra”

Aron Einar Gunnarsson

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, segir leikmenn tilbúna að mæta hvaða liði sem er. Hann segir Króata vera eins erfiða og hvaða annað lið sem gat dregist á móti Íslandi en það séu mögulega eitthvað sem vinnur með okkur í leikjum gegn Króatíu.

„Það voru fjögur sterk lið í pottinum og allir leikirnir hefðu verið erfiðir. Ég er ánægður með að sleppa við Portúgal en við kepptum við þá í undankeppni fyrir EM og þeir voru okkur ansi erfiðir þar. Það má því segja að það hafi ekki verið neinn óskadráttur fyrir okkur en í ljósi þeirra breytinga sem Króatía er að fara í gegnum með nýjan þjálfara þá var jafnvel bara best að fá þá. Svo horfum við til þess að Skotland gat unnið þá og því er ekkert sem segir að við eigum ekki góða möguleika gegn þeim,” segir Aron Einar.

Íslenska liðið er neðst á styrkleikalista FIFA og segir Aron okkur alltaf vera litla liðið í umspilinu. „Við erum alltaf litla liðið og það er örugglega mun meiri pressa á Króatíu að komast áfram en okkur. Við höfum engu að tapa í þessum leikjum og erum alveg óhræddir við þá. Við erum ekki að fara í neinn leik hugsandi að við eigum ekki möguleika. Við erum komnir svona langt og viljum fara lengra.” 

Við spilum í nóvember sem gæti þýtt að það verði kalt í veðri. Það er samt ekkert sem fyrirliðinn hefur áhyggjur af. „Ég veit að KSÍ er að gera ýmsar ráðstafanir til að völlurinn verði góður þegar við keppum. En við hugsum svo sem ekki mikið útí það. Undirbúningurinn hefur verið góður hingað til og við komum klárir í leikinn þann 15. nóvember sama hvernig völlurinn er.” Er Ísland að fara á HM? „Eigum við ekki að segja það. Við höfum engu að tapa og ætlum okkur lengra.”