U15 karla - Finnar lagðir í Sviss
Strákarnir í U15 karla lögðu Finna að velli með tveimur mörkum gegn engu en leikið var í Sviss. Þessi leikur var í undankeppni fyrir Ólympíuleika ungmenna en íslensku strákarnir mæta sigurvegaranum úr leik Armeníu og Moldóvu, sem fram fer síðar í dag, á mánudaginn.
Leikurinn var frekar jafn þó svo að Finnar hafi haft aðeins yfirhöndina í fyrri hálfleiknum en Íslendingar í þeim síðari. Þá komu einmitt mörkin sem skildu liðin að, Helgi Guðjónsson skoraði fyrra markið á 59. mínútu og Hilmar Andrew McShane það síðara á 64. mínútu. Eftir þetta var sigurinn aldrei í hættu.
Úrslitaleikurinn um sæti á Ólympíuleikum ungmenna fer svo fram á mánudaginn kl. 13:00 að íslenskum tíma. Þessir Ólympíuleikar fara svo fram á næsta ári í Nanjing í Kína.