• lau. 19. okt. 2013
  • Pistlar

Niðurröðun leikja í efstu deild karla

Geir Þorsteinsson
Geir-Thorsteinsson-April-2011-minni

Á hverju ári fer fram umræða um niðurröðun leikja KSÍ. Þessi umræða er oft keimlík og tekur mið af þeim viðfangsefnum sem glímt er við hverju sinni. KSÍ þarf að vanda sína niðurröðun og taka tillit til fjölda sjónarmiða en umfram allt að bjóða upp á skipulag sem þjónar hagsmunum aðildarfélaga sinna.

23 eða 37 leikir

Við niðurröðun í Pepsi deild karla þarf almennt að gæta þess að miða álagið við þá leikmenn sem leika mest. Það er einfaldlega ekki hægt að gera það á annan veg. Þannig verður KSÍ að taka tillit til leikjaálags yfir keppnistímabilið hjá leikmönnum sem leika hámarksfjölda leikja (22 deildarleikir, 5 bikarleikir, 6(7) Evrópuleikir og a. m. k. 4 landsleikir = a. m. k. 37 leikir) og skipuleggja niðurröðun út frá því en jafnframt að haga málum svo að leikir þeirra sem leika lágmarksfjölda leikja (22 deildarleikir og 1 bikarleikur = 23 leikir) dreifist sem best yfir tímabilið. Niðurröðun leikjanna verður umfram allt að þjóna hagsmunum allra 12 liðanna í deildinni. Þessir hagsmunir eru að leikið sé reglulega yfir allt tímabilið með hæfilegum hléum á milli leikja.

Keppnistímabilið er 5 mánuðir

Við skulu fara yfir niðurröðun leikja í Pepsi deild karla, skoða hvaða atriði skipta máli og hvað hafa verður í huga. Rammi mótsins er tímabilið sem því er markað, alls 5 mánuðir frá 1. maí til 30. september. Á þessu tímabili leikur hvert félag 22 leiki í deildinni og mest 5 leiki í bikarnum. Þetta eru 27 leikir á 150 dögum eða leikur að jafnaði fimmta hvern dag. Ætla mætti að niðurröðun leikja sé því einfalt mál þar sem KSÍ gerir almennt ráð fyrir að minnst 3 dagar séu milli leikja þó að stundum séu þeir aðeins 2. Við niðurröðun deildarleikja er reynt að gæta þess að allir hafi leikið jafnmarga leiki á tilteknum tímapunkti, þ. e. eftir 8. umferð hafi öll 12 liðin í deildinni leikið 8 leiki, og að þegar mótið er hálfnað, við lok 11. umferðar, hafi öll lið í deildinni mæst einu sinni.

Evrópuleikir

Það eru hins vegar atriði sem flækja málið. Á hverju ári taka 4 íslensk félagslið þátt í Evrópukeppni og í júlí og ágúst leikur hvert þeirra 2 - 6 leiki í keppninni. Árangurinn í sumar sýnir að reikna þarf með 6 Evrópuleikjum og kannski 7 ef við gerum ráð fyrir 1 leik í september. Hins vegar er rétt að geta þess að töluverðar breytingar verða á forkeppni Evrópudeildarinnar frá og með 2015, en þá fara 26 lið beint í riðlakeppnina í stað 16 eins og nú er. Þetta leiðir til þess að forkeppnin skilar 22 liðum í riðlakeppnina í stað 32, þ. e. mun fleiri og sterkari lið munu byrja þegar í 1. umferð forkeppninnar.

Landsleikir

Reikna þarf með þátttöku leikmanna í landsleikjum A landsliðsins og U21 landsliðsins. Á keppnistímabilinu gerist þetta framvegis í 2 gluggum, í júní og september. Gera þarf hlé á leikjum í deild og bikar frá mánudegi til föstudags viku síðar eða alls í 12  daga í hvort skipti. Í  hvorum glugga geta leikmenn leikið 2 landsleiki. Stundum leikur Ísland landsleiki að vori utan glugga, sér í lagi á þeim árum sem lokakeppni EM eða HM fara fram. Síðan er auðvitað mögulegt að gera þurfi hlé að sumri vegna þátttöku Íslands í lokakeppni A landsliða eða U21 landsliða.

Leikur fjórða hvern dag

Þegar þetta er allt saman vegið og metið kemur í ljós að KSÍ verður að hafa í huga við niðurröðun leikja a. m. k. 37 leiki á leikmann/menn félagsliðs yfir 150 daga eða að jafnaði fjórða hvern dag. Nú er myndin orðin allt önnur en leikur að jafnaði fimmta hvern dag eins og ætla mætti að væri forsenda niðurröðunar leikja hjá KSÍ. Ljóst má vera að leikur fjórða hvern dag yfir 5 mánaða tímabil er mikið álag - í raun allt of mikið álag.

Hvíldardagar

En raunverulegt leikjaálag er sem betur fer sjaldnast þannig því að ýmislegt kemur til frádráttar (hvíldar). A landsliðið hefur síðustu misseri verið skipað leikmönnum sem leika með erlendum félagsliðum ef frá eru skildir markverðir og nokkrir varamenn. Það sama á hins vegar ekki við um leikmenn U21 landsliðisins. Erfitt er fyrir lið að ná árangri í bikarleikjum og Evrópukeppni á sama tíma en á því eru þó undantekningar. Þetta hjálpar þegar kemur að mati á leikjaálagi og leikur fjórða hvern dag yfir 5 mánuði er ekki sá raunveruleiki sem leikmenn búa við. Hann er hins vegar sá að það koma tímabil sem félagsliða leika mjög þétt, mögulega 3-4 hvern dag að jafnaði yfir tiltekið tímabil og síðan með fleiri hvíldardögum þess á milli. Þetta hefur gerst undanfarin ár sérstaklega í kringum þátttöku íslenskra félagsliða í Evrópukeppni. Auðvitað er þetta mikið álag ef það stendur í margar vikur eins og dæmin sanna. Er hægt að komast hjá þessu og gefa íslenskum félagsliðum meira svigrúm til hvíldar (fleiri hvíldardaga) þegar þau leika í Evrópukeppni? Mikilvægt er að skilja að í raun er verið að velta fyrir sér hvort félögin geti leikið færri leiki í deild og bikar á meðan Evrópukeppni fer fram, færri leiki í deild og bikar í júlí og ágúst þegar aðstæður til knattspyrnu eru með besta móti.

Bikarleikir

Eðli bikarkeppninnar er annað en deildarkeppninnar og eftir að úrslitaleikur bikarkeppninnar var færður inn í miðjan ágúst er ljóst að leika verður undanúrslit og 8 liða úrslit í júlí og ágúst með hæfilegum fyrirvara fyrir úrslitaleikinn. Bikarleikir hafa því ákveðinn forgang á þessu tímabili því að ljúka þarf hverri umferð svo sú næsta geti farið fram. Það er kostur í stöðunni að flytja úrslitaleik bikarkeppninar aftur fyrir Íslandsmótið eins og áður var. Það gæfi meira svigrúm fyrir aðra leiki, sér í lagi þegar tekið er tillit til þess forgangs sem bikarleikir hafa. Rétt er þó að geta þess að frá og með 2014 þurfum við ekki lengur að hafa áhyggjur af því að lið úr efstu deild sem bíður ósigur í úrslitaleik bikarsins hagnist  á því að tapa deildarleik síðar gegn sigurvegaranum í deildinni því að framvegis fær liðið í 4. sæti efstu deildar Evrópusæti ef sama liðið er Íslands- og bikarmeistari. Þessi breyting er gerð af Knattspyrnusambandi Evrópu og nær til allra knattspyrnusambanda. Þetta atriði réð andstöðu margra við flutning á úrslitaleiknum inn í miðjan ágúst en nú verður að halda því til haga að þau rök eru að engu orðin.

Deildarleikir

Má þá fækka leikjum í júlí og ágúst í deilarkeppninni til að minnka álag á þessum tíma fyrir liðin sem leika í Evrópukeppni. Í þessari umræðu togast á tvenns konar sjónarmið, þeirra liða sem leika í Evrópukeppni og hinna sem ekki gera svo. Það eru 8 félagslið sem leika ekki í Evrópukeppni og eins og staðan er í dag leika þau um 8/9 umferðir í deildarkeppninni í júlí og ágúst. En skoðum leikjaálag í júlí og ágúst 2013 á liðin í Pepsi deild karla og teljum deildarleiki, bikarleiki og Evrópuleiki (teljum með 30. júní og 1. september og fáum þá 10 deildarleiki í stað 8):

Leikir                      Deild - Bikar - Evrópa

17*       Breiðablik        9 - 2 - 6

16        FH                   10 - 0 - 6

14*       KR                   8 - 2 - 4

14*       ÍBV                   9 - 1 - 4

13        Stjarnan           10 - 3

13        Fram                 10 - 3

11        Fylkir                10 - 1

10        Keflavík            10

10        Víkingur Ó.      10

10        Þór A.              10

9*         ÍA                     9

9*         Valur                9

* Leikirnir Breiðablik – KR, ÍA – KR og ÍBV – Valur fóru ekki fram á tímabilinu eins og niðurröðun gerði ráð fyrir (en ef þeir hefðu farið fram væri taflan svona)

18        Breiðablik        10 - 2 - 6

16        FH                   10 - 0 - 6

16        KR                   10 - 2 - 4

15        ÍBV                   10 - 1 - 4

13        Stjarnan           10 - 3

13        Fram                 10 - 3

11        Fylkir                10 - 1

10        Keflavík            10

10        Víkingur Ó.      10

10        Þór A.              10

10        ÍA                     10

10        Valur                10

Ofálag

Á þessu sést að leikjaálagið er frá 10 leikjum upp í 18 leiki á 60 dögum eða leikur að jafnaði sjötta hvern dag og allt niður í þriðja/fjórða hvern dag. (Hér vantar inn A landsleik 14. ágúst við Færeyjar og U21 landsleik í Evrópukeppni sama dag við Hvíta-Rússland. Í A leiknum komu 3 leikmenn við sögu sem leika með liðum í efstu deild og í U21 leiknum tóku 9 leikmenn þátt sem leika með liðum í efstu deild). Þegar álagið er metið má ljóst vera að leikur þriðja/fjórða hvern dag í 60 daga er of mikið álag í langan tíma en á móti verður að viðurkennast að álagið getur vart verið minna en 9-10 leikir á sama tímabili. Fækkun deildarleikja í júlí og ágúst til að létta álagið er því ekki augljós kostur. Hins vegar er nauðsynlegt að reyna að bregast við þessu mikla leikjaálagi á liðin sem taka þátt í Evrópukeppni. KSÍ mun nú hefja undirbúning næsta keppnistímabils og skipuleggja leikjadagskrá. Í þeirri vinnu þarf að skoða með hvaða hætti verður hægt að finna lausn á þessu verkefni í sátt við liðin í deildinni en eitt er ljóst að það verður aðeins gert með því að fækka deildar- eða bikarleikjum á tímabilinu. Í því vega deildarleikir þyngra því  þeir snerta öll liðin 12 en fjöldi leikja í bikarkeppninni er háður árangri og hann verður ekki skipulagður fyrir fram.

Hitt og þetta

Að lokum er rétt að geta þess að það eru fjölmörg önnur atriði en að ofan greinir sem hafa áhrif á niðurröðun leikja. Þau eru efni í marga pistla en til dæmis má upplýsa um auknar skyldur Knattspyrnusambands Evrópu á aðildarsamböndin þegar kemur að leikjum í mótum innanlands sem fram eiga að fara á sömu dögum og þegar leikið er í Meistaradeildinni eða Evrópudeildinni. Réttar er að tala um takmarkanir því að óheimilt er að skipuleggja leiki í efstu deild karla í löndum í Evrópu á þessum dögum nema með leyfi Knattspyrnusambands Evrópu. Slíkt leyfi fæst ekki auðveldlega og ekki fyrir heila umferð. Þetta takmarkar vitanlega niðurröðun leikja.

Geir Þorsteinsson

formaður KSÍ