• mán. 30. sep. 2013
  • Landslið

U17 kvenna - Sætur sigur á Rúmenum

Byrjunarliðið gegn Rúmeníu í undankeppni EM 30. september 2013
Byrjunarlidid-gegn-Rumeniu

Stelpurnar í U17 lögðu heimastúlkur í Rúmeníu í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM.  Lokatölur urðu 2 - 1 fyrir Íslands eftir að staðan var markalaus í leikhléi.

Það var rok og rigning sem tók á móti leikmönnum á leikstað í dag og hafði vindurinn nokkur áhrif.  Íslenska liðið var sterkara meirihluta leiksins en Rúmenar áttu sín færi.  Staðan markalaus eftir fyrri hálfleikinn en eftir 8 mínútna leik í síðari hálfleik komust heimastúlkur yfir.  Hulda Ósk Jónsdóttir tók þá til sinna ráða og setti tvö mörk, það fyrra á 57. mínútu og það síðara þegar 9 mínútur lifðu eftir af venjulegum leiktíma.  Íslensku stelpurnar fögnuðu því sigri í leikslok enda gott að byrja keppnina með því að innbyrða þrjú stig. 

Í hinum leik riðilsins unnu Spánverjar Íra, 2 - 1, en Írar eru næstu mótherjar Íslendinga í riðlinum en liðin mætast á miðvikudaginn.

Tómas Þóroddsson sendi okkur eftirfarandi umfjöllun um leikinn.

" Góður karaktersigur hjá Íslensku stelpunum.

Undir 17 ára kvennalandslið Íslands lék sinn fyrsta leik í milliriðli evrópumótsins í knattspyrnu. Leikið var gegn heimamönnum, Rúmeníu. Aðstæður voru ekki eins og best verður á kosið, en það var búið að rigna allann daginn og ringdi á meðan á leik stóð. Völlurinn var því orðinn gegn blautur og hafði það áhrif a spilamennsku liðanna. Íslensku stelpunar lentu undir í byrjun seinni hálfleiks en sýndu mikin karakter og komu til baka og unnu leikinn 2-1.

Byrjunarlið íslands var skipað eftirtöldum leikmönnum í leikkerfinu 4-2-3-1 Hafdís Erla, Erna Guðrún, Eva Bergrín, Lillý Rut, Arna Dís, Ingibjörg, María Eva, Bryndís Rún, Hulda Ósk, Petrea Björt og Esther Rós.

Fyrsta færi leiksins fengu Rúmenar er aukaspyrna þeirra fór í stöngina. Íslensku stelpunar fengu úrvalsfæri strax í næstu sókn er Esther komst ein i gegn en varnarmaður náði að bjarga i horn á síðustu stundu. Eftir þessi tvö færi voru Íslensku stúlkunar betri og komust í nokkur hálffæri.

 Á 19. min komst Esther Rós ein í gegn en var rifin niður og aukaspyrna dæmd. Ingibjörg átti svo ágætis skot sem fór framhjá. Á 27. min átti Ingibjörg hörku skot í varnarvegginn úr aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Mínútu seinna tók Arna Dís góða aukaspyrnu sem fór sömuleiðis í vegginn. Rúmenar brutu mikið til að stoppa hraðar sóknir okkar stelpna.

Á 32. min stakk Hulda Ósk inn á Esther Rós, en ágætis skot hennar fór yfir. Mínútu seinna stakk Esther inn á Petreu Björt, en gott skot hennar var varið. Rúmenía átti svo gott færi sem Hafdís varði örugglega.

Staðan því 0-0 er dómari leiksins flautaði til leikhlés. Rúmensku stelpunar komu svo ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og á 47. min skoruð þær mark af 35 metra færi, sláinn inn og algjörlega óverjandi fyrir Hafdísi í markinu. Bergrós Ásgeirsdóttir kom svo inn á 49. min fyrir Bryndísi Rún. Á 51. min komst Esther Rós ein í gegn en náði ekki valdi á boltanum.

Íslendingar tóku leikinn í sínar hendur eftir mark Rúmena og lá mark í loftinu. Hulda Ósk skorað í autt markið eftir góðan undirbúning frá Esther Rós og Petreu. Virkilega vel að þessu marki staðið og staðan því orðin 1-1.

Hulda Hrund kom svo inn fyrir Petreu tveimur mínútum seinna og lét fljótlega til sín taka. Eftir frábæra baráttu og góða tæklingu frá Huldu Hrund vann Arna Dís boltann og stakk í fyrsta inn á Huldu Ósk, hún fór framhjá markverðinum og kláraði færið frábærlega og kom Íslandi í 2-1. Gríðalega gott mark hjá Ísnska liðinu.

Hulda Ósk átti stuttu síðar virkilega góða stungusendingu inn á Esther Rós, en skot hennar fór rétt framhjá. Esther Rós laumaði svo boltanum skemmtilega inn á Huldu Hrund sem skut boltanum rétt framhjá. Hrefna kom svo inn fyrir Ingibjörgu á 77. min. Íslendingar heldu vel til leiksloka og fögnuðu mikið er dómarinn flautaði leikinn af.

Næsti leikur Íslendinga er gegn írsku stelpunum, en þær töpuðu 2-1 fyrir Spánverjum í sínum fyrsta leik. Sá leikur verður leikinn miðvikudaginn 2. okt og hefst kl 17.00 á staðartíma, eða kl 14.00 að Islenskum tíma."