• mán. 23. sep. 2013
  • Landslið

U17 karla - Frábær sigur á Slóvökum

U17-karla-Slovakia
U17-karla-Slovakia

Strákarnir í U17 unnu frábæran sigur á jafnöldum sínum frá Slóvakíu í dag í undankeppni EM en leikið var í Volograd í Rússlandi.  Lokatölur urðu 2 - 4 fyrir Ísland eftir að Slóvakar höfðu leitt í leikhléi, 2 - 1.

Þetta var annar leikur Íslands í riðlinum en áður hafði liðið gert 3 - 3 jafntefli gegn Aserum.  Íslendingar komust yfir í þessum leik á 15. mínútu þegar Viktor Karl Einarsson skoraði.  Slóvakar svöruðu með tveimur mörkum og kom það síðara í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Íslensku strákarnir áttu svo eftirminnilegan síðari hálfleik því Ragnar Már Lárusson jafnaði metin á 55. mínútu en hann hafði komið inn sem varamaður þremur mínútum áður.  Albert Guðmundsson kom svo Íslendingum yfir á 61. mínútu og Ragnar Már tryggði íslenskan sigur með öðru marki sínu, einni mínútu fyrir leikslok.

Frábær sigur hjá strákunum sem sýndu mikla seiglu og baráttu gegn góðu liði frá Slóvakíu.  Lokaleikur Íslands í riðlinum fer svo fram fimmtudaginn 26. september þegar leikið verður gegn gestgjöfum Rússa.  Þeir lögðu Slóvaka í fyrsta leiknum, 2 - 1, en leika við Asera síðar í dag.

Riðillinn

U17-karla-Slovakia