• lau. 21. sep. 2013
  • Landslið

U17 karla - Jafntefli gegn Aserum í hörkuleik

U17 landslið karla
ksi-u17karla

Strákarnir í U17 hófu leik í dag í undankeppni EM en riðill þeirra er leikinn í Rússlandi.  Mótherjar dagsins voru Aserar og eftir hörkuleik lauk leiknum með jafntefli, 3 - 3. 

Það voru Aserar sem voru ætíð á undan að skora og komust yfir á 11. mínútu en Viktor Karl Einarsson jafnaði metin á 20. mínútu.  Þannig var staðan í leikhléi en Aserar komust aftur yfir eftir 10 mínútna leik en fyrirliðinn, Darri Sigþórsson, jafnaði metin á 62. mínútu.  Það liðu aðeins sex mínútur og þá fengu Aserar vítaspyrnu sem þeir skoruðu úr en fjórum mínútum síðar jafnaði Ernir Bjarnason metin.  Á lokamínútunum sótti íslenska liðið stíft og fékk nokkur góð marktækifæri til að tryggja sér sigur en án árangurs.

Næsti leikur íslenska liðsins er gegn Slóvakíu sem leikur gegn gestgjöfum Rússa síðar í dag.  Leikurinn við Slóvaka fer fram mánudaginn 23. september og hefst kl. 09:00 að íslenskum tíma.