U19 karla - Tap gegn Noregi á Svíþjóðarmótinu
Strákarnir í U19 töpuðu gegn Norðmönnum á Svíþjóðarmótinu í dag en þetta var annar leikur liðsins á mótinu. Norðmenn höfðu betur, 1 - 2, eftir að Íslendingar höfðu leitt í leikhléi, 1 - 0.
Eftir jafnan fyrri hálfleik var það íslenska liðið sem náði forystunni á lokamínútu hálfleiksins. Fyrirliðinn, Samúel Kári Friðjónsson, tók langt innkast og Ásgeir Sigurgeirsson var fyrstur að átta sig og kom boltanum í netið.
Norðmenn höfðu svo undirtökin í síðari hálfleik, jöfnuðu metin á 58. mínútu og komust svo yfir átta mínútum síðar og reyndist það sigurmarkið.
Lokaleikur Íslands er svo gegn heimamönnum í Svíþjóð á laugardaginn en Svíar leika gegn Slóvakíu í kvöld. Norðmenn hafa unnið báða sína leiki til þessa á mótinu.