• þri. 10. sep. 2013
  • Landslið

Uppselt á Ísland - Albanía

Tolfan
Tolfan

Framundan eru tveir gríðarlega mikilvægir leikir hjá landsliðum Íslands en bæði A landslið karla og U21 karla verða í eldlínunni.  Strákarnir í U21 leika gegn Kasakstan á Kópavogsvelli kl. 16:00 í undankeppni EM.  Á Laugardalsvelli verður svo karlalandsliðið í flóðljósunum þegar þeir taka á mót Albaníu í undankeppni HM kl. 19:00.  Uppselt er á þann leik.

Strákarnir í U21 hafa byrjað undankeppnina krafti og leikið frábærlega til þessa.  Þeir hafa fullt hús, níu stig eftir þrjá leiki, og takast nú á við Kasaka sem hafa þrjú stig eftir þrjá leiki.  Knattspyrnuáhugafólk er hvatt til þess að mæta og hvetja okkar framtíðarmenn en aðgangseyrir er 1.000 krónur fyrir fullorðna en frítt er inn fyrir 16 ára og yngri.

Uppselt er á leik Íslands og Albaníu sem fram fer á Laugardalsvelli kl. 19:00 í kvöld.  Völlurinn opnar kl. 18:00 og eru áhorfendur hvattir til þess að mæta tímanlega til að sleppa við biðraðir rétt fyrir leik.